Ferðafélag Ísfirðinga - ferðaáætlun 2025

ALLIR eru velkomnir - félagsmenn jafnt sem aðrir

17. maí - Eyrarhlíð 
24. maí - Söguferð um Holtahverfi  
31. maí - Dalir Bolungarvíkur 
14. júní - Sögualdarferð um Súgandafjörð 
21. júní - Arnarnúpur 
24. júní - Mannlíf og saga í Haukadal 
28. júní - Hestafjarðarbotn 
2. júlí - Skógargöngur í Dýrafirði – fyrri hluti 
5. júlí - Á Straumnesfjall og um Rekavík bak Látur 
12. júlí - Tjaldanesdalur – Kirkjubólsdalur 
19. júlí - Rauðisandur – Keflavík 
20. júlí - Sjöundá 
27. júlí - Snæfjallaströnd 
9. ágúst - Sporhamarsfjall 
16. ágúst - Eyðibyggðir Arnarfjarðar – Tjaldanes að Álftamýri 
23. ágúst - Lambadalsfjall 
30. ágúst - Gíslaganga og Sambatal í Selárdal 
6. september - Á heimaslóðum 
13. september - Hrafnseyri-Haugsdalur 
20. september - Engidalur - Háafell 
27. september - Óvissuferð  

 

Eyrarhlíð --- 1 skór ---
Ísfirskir göngustígar og kynning á ferðaáætlun
Laugardaginn 17. maí

Umsjón: stjórn Ferðafélags Ísfirðinga.

Mæting kl. 12.30 við Netagerðina á Grænagarði.
Gengið upp frá Grænagarði inn á göngustíga milli fjalls og byggðar. Endað í Safnahúsinu á Eyrartúni þar sem ferðaáætlun gönguársins 2025 verður kynnt í máli og myndum.
Boðið verður upp á veitingar með kynningunni.
Göngutími: tæp klukkustund. Kynning: tæpar tvær klukkustundir.

 

Söguferð um Holtahverfi og nágrenni  --- 1 skór ---
Bæjarganga um úthverfi Ísafjarðar
Laugardaginn 24. maí

Fararstjórn: Ragnar Kristinsson (Raggi í Laufási).
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið um Tunguhverfi, Holtahverfi og áleiðis inn Engidal. Sagt frá svæðinu eins og það var áður en þar reis þéttbýli og hvernig það tók að myndast.
Raggi er einn af frumbyggjum svæðisins og kann gnótt af sögum af fólkinu og landinu.
Göngutími: 2-3 klst.

 

 

Dalir Bolungarvíkur  --- 1 skór ---
Laugardaginn 31. maí

Fararstjórn: Elín Þóra Stefánsdóttir.
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.
Hringleið fyrir innan Bolungarvík. Gengið  upp á varnargarð, fram Tungudal, farið yfir ána fyrir ofan Þjóðólfstungu, vaðið yfir Hólsá, farið niður Hólsdalinn og að kirkjunni og loks í gegnum skógræktina áður en hringnum er lokað.

Vegalengd: 4-5 km, göngutími: um 2 klst., lítil hækkun.

Tilbrigði: Grjótskál í Tungudal innlimuð í hringinn. Þá lengist leiðin um helming og hækkun er umtalsverð (rúmir 300 m). Þátttakendur og veðrið leiða í ljós hvor útgáfan verður valin. --- 2 skór ---

3

 

Sögualdarferð um Súgandafjörð  --- 1 skór ---
Laugardaginn 14. júní

Fararstjórn: Stjórn Ferðaféalgs Ísfirðinga.
Sögumenn og fræðarar: Eyþór Eðvarðsson og  Pétur Óli Þorvaldsson.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði.

Sögualdarferð í Súgandafirði. Þátttakendur keyra að Botni í Súgandafirði þar sem landnámsaldar -tilgátuskálinn er skoðaður undir leiðsögn Eyþórs Eðvarðssonar. Að því loknu er keyrt út í Staðardal og þá að verbúðinni sem þar hefur verið byggð upp. Verbúðin skoðuð undir leiðsögn Eyþórs. Þátttakendur ganga síðan inn að Stað að landnámsaldar - tilgátuskála sem þar hefur verið reistur. Leiðsögn í höndum þeirra sem þar hafa verið að verki. Möguleiki á að ganga áleiðis upp í Sunndal í lok ferðarinnar.

Vegalengd: Um 1 km í Botni og annað eins í Staðardal, að því gefnu að leiðin sé ekki lengd. Það má samt búast við að þetta taki allt langan tíma (2-4 klst.) því frá mörgu er að segja.

4

 

 


Arnarnúpur  --- 2 skór ---
Laugardaginn 21. júní

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið frá Sveinseyrarvatni sem leið liggur upp Sveinseyrarhvilftina, upp á Arnarnúpinn, hæð 558 m. Gengið meðfram fjallsbrúnum og notið stórfenglegs útsýnis, m.a. yfir hinn undurfagra Keldudal.
Í þessari ferð verður farið með nýjan gestabókarkassa upp á núpinn og honum komið þar fyrir.

Vegalengd: u.þ.b. 8 km, göngutími: 5 klst., hækkun: 550 m.

 

 

Mannlíf og saga í Haukadal - Gönguferð og sögustund  --- 1 skór ---
Þriðjudaginn 24. júní

Gönguformaður og sögumaður: Elfar Logi Hannesson.
Mæting kl. 19.00 við Bónus á Ísafirði, 19.45 við íþróttamiðstöðina á Þingeyri og 20:00 við Kómedíuleikhúsið í Haukadal.

Gengið verður á milli bæja í Haukadal og sögur sagðar af ábúendum og gestum frá landnámi fram á þennan dag.
Að göngu lokinni verður boðið inní Kómedíuleikhús í Haukadal hvar hægt verður að fá sér hressingu á einstaklega kómísku verði.

Vegalengd: ekkert til að hafa áhyggjur af, áætlaður göngutími: á áætlun,  hækkun: tekur ekki að nefna hana.
Hóflegt verð verður auglýst síðar. Félagsmenn FFÍ fá 20% afslátt.

 

 


Hestfjarðarbotn  --- 2 skór ---
Laugardaginn 28. júní

Fararstjórn: Barði Ingibjartsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði. Farið á einkabílum að brúnni innst í Hestfirði.

Gengið verður að fallegum en sjaldséðum náttúrufyrirbærum sem eru nánast í alfaraleið: Búasteinn í Búasteinshlíð og Lambagilsfoss.
Leiðin er stutt en ekki mjög greiðfær. Barði er þó búinn að klippa hrís til að auðvelda aðgengið. Fara þarf yfir eitt gil en það er ekki mikil fyrirstaða.
Vegalengd: um 4 km fram og til baka,  göngutími: 2-4 klst.

 

Skógargöngur í Dýrafirði – fyrri hluti  --- 1 skór ---
Miðvikudaginn 2. júlí

Fararstjórn: Stjórn Ferðafélags Ísfirðinga.
Sögumaður og fræðari: Sæmundur Kr. Þorvaldsson skógfræðingur.
Mæting kl. 17.30 við Bónus á Ísafirði. Í skoðun er að leigja rútu fyrir þessa ferð.
Skoðuð verður skógrækt í Dýrafirði norðanverðum. Farið á einkabílum eða með rútu milli staða. Ekki verður gengið mikið á hverjum stað en þeim mun meira hlustað og talað. Sögð verður saga trjáreitanna, helstu trjátegundir nefndar og fjallað um vöxt og viðgang trjánna.
Áætlaður tími: 3-5 klst.
Árið 2026 er fyrirhugað að fara í samskonar ferð, nema að þá verður skógræktin í sunnanverðum Dýrafirði skoðuð.

 

 


Á Straumnesfjall og um Rekavík bak Látur  --- 2 skór ---
Laugardaginn 5. júlí

Fararstjórn: Snorri Grímsson og Yngvi Snorrason.
Mæting kl. 8.00 við Sundahöfn á Ísafirði.
Siglt að Látrum. Sagt frá þorpinu sem þar stóð. Þar var skóli, útgerð, löggiltur verslunarstaður og fjölmennasta þéttbýli norðan Djúps; um 140 manns þegar mest lét á árunum 1920-1940. Eftir að byggð lagðist af var aftur ráðist þar í framkvæmdir. Það var í kringum byggingu ratstjárstöðvar bandaríska hersins uppi á Straumnesfjalli. Þangað var lagður vegur og eftir honum verður gengið. Víðsýnt er af þeirri leið. Rústir ratsjárstöðvarinnar verða skoðaðar og frá þeim sagt. Leiðin til baka liggur niður Öldudal. Það er erfiðasti hluti ferðarinnar; vegleysur og bratti en þó lítið um klungur og ekkert klifur. Stoppað í Rekavík og því næst gengið meðfram Rekavíkurvatni þar sem göngufærið er ýmist gott eða torfærara. Við enda vatnsins er fljótlega komið inn á vegslóða. Hann kemur upp á veginn sem liggur að Látrum. Þar endar ferðin.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com, þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 30 manns komist með í ferðina.
Verð fyrir félagsmenn FFÍ: 16.000 kr., verð fyrir aðra: 20.000 kr.
Vegalengd: um 20 km, göngutími: 6-8 klst., ferðatími í heild um 12 tímar, upphækkun: um 420 m.

 

 


Tjaldanesdalur – Kirkjubólsdalur  --- 2 skór ---
Laugardaginn 12. júlí

Fararstjórn: Þórir Örn Guðmundsson.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði.

Komið saman á Þingeyri. Ekið á nokkrum bílum að Tjaldanesdal þar sem gangan hefst.

Gengið er fram allan dalinn og upp í skarðið milli Tjaldanesdals og  Göngudals í Kirkjubólsdal. Þaðan niður Göngudal og eftir Tröllagötum í Kirkjubólsdal að Hofi og áfram að bílunum sem voru skildir eftir.

Vegalengd: um 11 km, göngutími: um það bil 5-6 klst., hækkun: um 500 m.

 

 


Rauðisandur – Keflavík  --- 2 skór ---
Laugardaginn 19. júlí

Fararstjórn: Guðrún Anna Finnbogadóttir og Ómar Smári Kristinsson.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði.

Komið saman við bílastæðið hjá Lambavatni á Rauðasandi og miðað við að gangan hefjist fyrir kl. 11:00. Gengið með fjörunni að Naustabrekkum og farið upp sneiðinginn þar. Gengið yfir Kerlingarháls, vonandi í góðu skyggni, því þaðan er fagurt útsýni. Komið niður í Keflavík þar sem skoðaðar verða rústir verbúða og sagt frá búsetu.  Gengið eftir vegslóðanum upp úr víkinni. Ofan við brekkubrún bíður rúta sem ekur fólki að bílunum við Lambavatn.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 20 manns komist með í ferðina.

Verð fyrir rútufar auglýst síðar.

Vegalengd: um 12 km, göngutími: 5-7 klst., hækkun: tæpir 300 m.

ATH. Daginn eftir, sunnudaginn 20. júlí, verður gönguferð á Rauðasandi. Fólk þarf sjálft að verða sér úti um gistingu, ætli það einnig í þá ferð.

 

 

Sjöundá  --- 1 skór ---
Sunnudaginn. 20. júlí

Fararstjórn: Þröstur Reynisson.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði og kl. 10.30 á Melanesi á Rauðasandi. Þar hefst gangan.

Stutt og auðveld ganga en rík af umfjöllunarefni, m.a. af Sjöundármálunum, þeirri miklu harmsögu.

Vegalengd alls: um 4 km, göngutími: 2-3 klst., lítil upphækkun.
Fótabað í sjónum á eftir og/eða veitingar á Franska kaffihúsinu.

 


Snæfjallaströnd  --- 2 skór ---
Sunnudaginn. 27. júlí

Fararstjórn: Emil Ingi Emilsson.
Sögumenn og fræðarar: Elfar Logi Hannesson og hugsanlega fleiri.
Mæting kl. 8.00 við Sundahöfn á Ísafirði.
Siglt að Sandeyri - innlegg frá Elfari Loga um Baskavígin þar - gengið að hinni gömlu byggð við utanverða Snæfjallaströnd. Því næst er gengið inn Snæfjallaströnd alla leið að Hlíðarhúsum við Innra-Skarð. Þar er innlegg um Margréti Þórðardóttur sem sagan segir að eigi að hafa verið drekkt í Möngufossi sem rennur úr skarðinu. Gengið að fossinum. Ferðinni lýkur með bátsferð aftur til Ísafjarðar frá Hlíðarhúsum.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com, þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 30 manns komist með í ferðina.

Verð: 12.000 kr. fyrir félaga FFÍ. 15.000 kr. fyrir aðra.
Vegalengd alls: um 10.5 km, göngu- og sögutími: 8-9 klst., ferðatími alls um 12 klst., lítil upphækkun.

 


Sporhamarsfjall  --- 2 skór ---
Laugardaginn 9. ágúst

Fararstjórn: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Steinþór Bjarni Kristjánsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði og 9.30 við Kirkjuból í Valþjófsdal.

Gengið upp á Sporhamarsfjall og meðfram brún þess. Þaðan blasir Önundarfjörður við. Leiðin er brött á kafla en þó er ekkert klifur.

Vegalengd: um 10 km, göngutími: 6-7 klst., hækkun: 650 m.

 

 


Eyðibyggðir Arnarfjarðar – Tjaldanes að Álftamýri  --- 1-2 skór ---
Laugardaginn 16. ágúst

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði og 10.30 við afleggjarann að Auðkúlu.
Sameinast í bíla til að fara yfir Kúluá og Tjaldanesá. Gangan hefst skammt frá vaðinu og endar á Álftamýri. Gengið sömu leið til baka.
Fyrirhugað er að vera með framhaldsgöngur næstu ár. Markmið ferðanna er að fá innsýn í sögu mannlífsins á svæðinu um leið og stórbrotins umhverfisins er notið. Verða krækiberin orðin þroskuð?
Vegalengd fram og til baka: 20 km, göngutími: 6-7 klst., hækkun ekki mikil, öll gangan á vegslóða og lítil hætta á að það þurfi að vaða.

 

 


Lambadalsfjall  --- 3 skór ---
Laugardaginn 23. ágúst

Fararstjórn: Sighvatur Jón Þórarinsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði.

Gengið upp Hvallátursdal og á hápunkt Lambadalsfjalls. Drjúg ganga og nokkuð erfið. Fer eftir snjóalögum hvernig gengur. Þarna er frekar þokusækið, sérstaklega í norðaustanáttum. Fólk þarf að klæða sig eftir veðri. Stundum getur gustað um þá sem eru á toppnum. Mjög víðsýnt er af fjallinu í góðu veðri.

Heildarvegalengd: allt að 15-16 km, eftir því hvaða leið er valin en það fer eftir snjóalögum og veðri.
Göngutími: minnst 8 klst., upphækkun: 970 m.

Ef ekki viðrar til ferðarinnar, verður valin önnur leið.

 

 

Gíslaganga og Sambatal í Selárdal  --- 1 skór ---
Gönguferð og sögustund
Laugardaginn 30. ágúst

Gönguformaður og sögumaður: Elfar Logi Hannesson.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði og við Selárdalskirkju kl. 13:00.

Gengið verður frá Selárdalskirkju að síðasta bænum í dalnum, nefnilega hinum þekkta bæ

Uppsölum hvar bjó hinn einstaki Gísli Oktavíus Gíslason. Sagðar verða Gíslasögur á sögustað og það verður sko enginn lurkur. Að göngu lokinni verður skundað í Dimmalimm, íbúðarhús Samúels í Selárdal er kallaður var Sambi. Þar verður hægt að gæða sér á hinni þekktu hjónabandssælu listakonunnar Billu.

Vegalengd: 3 km alls, áætlaður göngutími: á áætlun.
Verð fyrir göngu og frásagnir auglýst síðar. Félagsmenn FFÍ fá 20% afslátt.
Kaffiveitingar einnig á sanngjörnu verði.

 

 


Á heimaslóðum  --- 2 skór ---
Laugardaginn. 6. september

Fararstjórn: Hermann Gunnarsson og Þorgerður Kristjánsdóttir.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði.

Gengið frá Miðhúsum að Svansvík, þar sem ferðin endar. Þetta eru heimaslóðir fararstjóranna.
Mögulega verður hægt er að fara í sund í Reykjanesi að ferð lokinni.

Vegalengd: um 10 km, göngutími: 5-6 klst., hækkun: um 200 m. 

 

 


Hrafnseyri – Haugsdalur --- 2 skór ---
Laugardaginn 13. september
Fararstjórn: Ingi Björn Guðnason, staðarhaldari á Hrafnseyri. Hugsanlega fleiri fararstjórar.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði. Farið þaðan á einkabílum.

Gengið inn Hrafnseyrardal og inn í Haugsdal. Veginum fylgt til baka. Róleg ganga um móa og mela, því frá mörgu er að segja. Þar á meðal er sagt frá uppvaxtarárum Jóns Sigurðssonar og öðru sem tengist lífinu á Hrafnseyri á fyrri tíð. Að göngu lokinni er boðið upp á að skoða sýninguna um Jón Sigurðsson.
Vegalengd um 12 km, göngutími er áætlaður 5-6 klst., hækkun í um 200 m.
Ferð í samstarfi við menningarsetrið á Hrafnseyri.

 

 


Engidalur - Háafell  --- 2 skór ---
Laugardaginn. 20. september

Fararstjórn: Þröstur Jóhannesson.
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið upp frá bílastæði við Fossa, skáhallt upp á Kubba. Fjallsbrúninni fylgt; Háafell og Engidalsfjöll. Vegslóða fylgt að Nónvatni, Selá fylgt niður að Langá í Engidal og hringnum lokað.
Vegalengd: um 14 km, göngutími:  5-7 klst., upphækkun: rúmir 500 m.

 

 


Óvissuferð  --- 1-2 skór ---
Laugardaginn. 27. september

Fararstjórn: Kemur í ljós.
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.

Um þessa ferð ríkir alger óvissa. Þó er nokkuð ljóst að hún verður fyrir öll skilningarvit – líka bragðskynið.

 

 

 

Ferðaskilmálar og reglur

Staðgreiða þarf í allar ferðir, verkefni og námskeið við bókun, nema annað sé tekið fram.

Verð í ferðir og námskeið félagsins er sett fram með tvennum hætti: Annars vegar fyrir félagsmenn FFÍ og hins vegar fyrir þá sem ekki eru skráðir félagsmenn. FFÍ áskilur sér rétt til að innheimta árgjald félagsins eða mismun almenns verðs og félagsverðs hafi félagsverð verið greitt án virkrar félagsaðildar.

1. Afbókunarskilmálar fyrir dagsferðir

Afbókun 7 dögum eða meira fyrir brottför: 85% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 6-3 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 2 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

2. Afbókunarskilmálar fyrir lengri ferðir (2 dagar og lengri)

Afbókun 30 dögum eða meira fyrir brottför: 85% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 29-14 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 13-7 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 6-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

3. Afslættir

Börn og unglingar, 7-18, í fylgd forráðamanna, greiða hálft gjald í ferðir félagsins. Börn, 6 ára og yngri, ferðast ókeypis með forráðamönnum sínum.

Félagsmenn í Ferðafélagi Ísfirðinga fá afslátt í allar ferðir félagsins. Afsláttur félagsmanna gildir einnig fyrir maka og börn að 18 ára aldri í fylgd félagsmanns.

4. Breytingar

Ferðafélag Ísfirðinga áskilur sér rétt til að hætta við, fresta ferð/námskeiði eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.

Ef félagið aflýsir ferð/námskeiði, er fargjald endurgreitt að fullu.

Ferðafélag Ísfirðinga áskilur sér rétt til að breyta, fresta eða endurskipuleggja dagskrá félagsins vegna sóttarvarfyrirmæla í tengslum við Covid 19 eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna

5. Tryggingar

Ferðafélag Ísfirðinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Félagið hvetur fólk til að kaupa ferða- og slysatryggingar fyrir ferðir.

6. Fyrirvarar

Þátttakendum í ferðum FFÍ er ljóst að för í óbyggðum getur verið áhættusöm. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð og skuldbinda sig með skráningu í ferð til að gera ekki kröfur á FÍ vegna mögulegs tjóns sem þeir verða fyrir í ferðinni.

Farþegar verða að velja ferðir sem hæfa þeirra líkamlega formi. Vinsamlega kynnið ykkur upplýsingar um útbúnað og veður áður en lagt er af stað.

7. Birting myndefnis

Þátttakendur í ferðum og námskeiðum FFÍ samþykkja með þátttöku sinni að félaginu sé að heimilt að taka myndir eða myndbönd af þátttakendum og nota í birtingu á heimasíðu, samfélagsmiðlum og prentmiðlum. Þátttakandi getur ávallt hafnað birtingu myndefnis af sér með því að senda póst á ferdafelag.isfirdinga@gmail.com.