Lög félagsins

Lög Ferðafélags Ísfirðingaferdafelag isfirdinga logo

 

1.gr.

Félagið heitir Ferðafélag Ísfirðinga (skammstafað FFÍ). Starfssvæði félagsins er Norður- og Vestur   – Ísafjarðarsýslur.

  1. gr.

Félagið er áhugamannafélag og er tilgangur þess að stuðla að ferðalögum um Ísland, einkum á Vestfjörðum.

3.gr.

Félagið er deild í Ferðafélagi Íslands en starfar sjálfstætt og er með sjálfstæðan fjárhag. Innan FFÍ er heimilt að stofna deildir um sérstök áhugamál eða verkefni, s.s. unglingadeild, fjallgöngudeild o.s.frv.

4.gr. 

Stjórn FFÍ skipa 5 manns; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir á tveggja ára fresti, tveir í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Stjórnin skipar nefndir og formenn þeirra eftir því sem þörf er talin á, en göngunefnd og fræðslunefnd skulu vera fastanefndir. Formenn fastanefnda hafa rétt til að sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.

5.gr.

Reikningsár FFÍ skal vera almanaksárið og aðalfund þess skal halda fyrir lok marsmánaðar. Aðalfund skal auglýsa með a.m.k. viku fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

  1. Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs.
  2. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Lagabreytingar.
  4. Kosning formanns.
  5. Kosning tveggja stjórnarmanna.
  6. Kosning tveggja varamanna.
  7. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  8. Ákvörðun árgjalds
  9. Önnur mál

Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa allir fullgildir félagar. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála.

6.gr.

Félagsfundi skal stjórn halda svo oft sem þurfa þykir. Æski fimmtungur félagsmanna skriflega eftir félagsfundi er stjórninni skylt að boða til fundar. Félagsfundi skal auglýsa með a.m.k. viku fyrirvara.

7.gr.

Eigi má slíta félaginu nema að tillaga þar að lútandi sé samþykkt á tveimur lögmætum fundum með minnst mánaðar millibili og að fundarefnis hafi verið getið í auglýsingu um fundinn. Við slit skal eignum félagsins ráðstafað til hliðstæðs félags á Vestfjörðum, til Ferðafélags Íslands eða annarra deilda innan þess.

8.gr.

Að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum, gilda lög Ferðafélags Íslands eins og þau eru á hverjum tíma, þ.m.t. ákvæði um hlutdeild FÍ í árgjaldi FFÍ.

9.gr.

Með samþykkt laga þessara eru eldri lög Ferðafélags Ísfirðinga fallin úr gildi.