Verklagsreglur og vinnuleiðbeiningar í ferðum Ferðafélags Ísfirðinga (drög)
Leiðsögumaður skal, ef því verður við komið, vera búinn að kanna vel svæðið sem gengið verður um áður en að göngudegi kemur.
Leiðsögumaður byrjar ávallt á að kynna sig og gefa þátttakendum stutt yfirlit yfir ferðina.
Skyndihjálpartaska verði ætíð höfð með í ferðum félagsins. Leiðsögumaður ber ábyrgð á því að hún sé til staðar í ferðunum. Ætíð skal gætt að því að nauðsynlegur búnaður sé til staðar og keypt inn í stað þess sem notað er.
Komi upp slys skal án tafar huga að viðkomandi einstaklingi og reynt að veita honum þá aðstoð sem hann þarf og hægt er að veita miðað við aðstæður. Reynist áverkar alvarlegir skal án tafar leita eftir aðstoð með því að hafa samband við hjálparaðila.
Í ferðum þar sem þátttakendur eru 55 eða fleiri skal ávallt reynt að fá einn úr hópnum sem vel er treystandi til að vera aftasti maður. Hann lætur fararstjóra vita ef að eitthvað kemur uppá og einnig ef að draga skal úr hraða.
Ætíð skal reynt að gæta þess að einn stjórnarmaður eða formaður göngunefndar verði einnig með í för.
Ferðafélag Ísfirðinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Félagið hvetur fólk til að kaupa ferða- og slysatryggingar fyrir ferðir.
Fylgjast skal með veðurspá fyrir ferð – sé veðurspá slæm og gert ráð fyrir meira vindhraða en 18 metrum á sekúndu er rétt að fresta ferð eða breyta. Rétt er að hafa í huga að veður breytist hér á landi á örskammri stundu. Þá er veður til fjalla yfirleitt mun verra en í byggð.
Mikilvægt er að hafa GPS tæki og kunnáttu til að vinna með tækið.
Þátttakendur í ferðum og námskeiðum samþykkja með þátttöku sinni að félaginu sé heimilt að taka myndir eða myndbönd af þátttakendum og nota í birtingu á heimasíðu, samfélagsmiðlum og prentmiðlum. Þátttakandi getur samt ávallt hafnað birtingu myndefnis af sér með því að senda póst á ferdafelag.isfirdinga@gmail.com eða látið vita af því í upphafi ferðar.
Síðast en ekki síst skulu ferðalangar sýna hver öðrum kurteisi og nærgætni í gönguferðum.
Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi. Mikilvægt er að undirbúa sig vandlega fyrir hverja ferð.
You must be logged in to post a comment.