Ferðafélag Ísfirðinga - ferðaáætlun 2023

ALLIR eru velkomnir - félagsmenn jafnt sem aðrir

 

 

Naustahvilft   1 skór

Laugardaginn 20. maí

Umsjón: stjórn Ferðafélags Ísfirðinga

Mæting kl. 10 við Naustahvilft

Gengið upp í hvilftina þar sem ferðaáætlunin verður kynnt formlega. Boðið verður upp á veitingar að henni lokinni.

 

 

 

Söguferð um Flateyri  1 skór
Bæjarganga og ganga upp í Klofningsdal       1 skór
Laugardaginn 27. maí
Fararstjórn: Guðmundur Björgvinsson 
Mæting: Kl. 10 við Bónus á Ísafirði og 10:30 á Flateyri við sundlaugina
Bæjarrölt um Flateyri þar sem m.a. verður genginn hringur um eldri hluta bæjarins og síðan upp að snjóflóðavarnargörðunum.  Að því loknu verður gengið upp í Klofningsdal.

Vegalengd um 4 - 5 km, göngutími er áætlaður 3-4 klst., hæð um 200 m.

 

 

 

Meðaldalur   1 skór

Laugardaginn 3. júní

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir

Mæting kl. 9 við Bónus og kl. 9.45 við íþróttamiðstöðina á Þingeyri

Í Meðaldal er margt forvitnilegt að sjá. Þar er skemmtilegur golfvöllur Þingeyringa í fögrum fjallasal, leifar gamallar vatnsvirkjunar frá upphafi tæknialdar og silfurbergsnáma í botni dalsins svo eitthvað sé nefnt. Það var í kringum 1910 sem miklar framkvæmdir áttu sér stað í botni dalsins er framámenn leituðu að silfurbergi sem í þá tíð var mikið notað í ýmiss konar sjóngler. Náman var 10 - 15 metra djúp og námuopið 2,5 metrar í þvermál fremst en mjókkaði svo inn á við. Töluvert hefur borist af efni inn í námuna svo að í dag er hún  mjög grunn (4 - 6 metrar á dýpt). Er vinnslan var hafin, kom í ljós að efnið var ekki silfurberg heldur skyld steind sem nefnist aragónít. Gengið eftir ruddum vegslóða langleiðina af leiðinni.

Vegalengd: 10 km, áætlaður göngutími 4 tímar,  hækkun upp í um 120 m.

 

 

Mjóifjörður - Reykjarfjörður         2 skór

Frá Hörgshlíð í Mjóafirði yfir í botn Reykjarfjarðar

Laugardaginn 10. júní

Fararstjórn: Þorgerður Kristjánsdóttir og Hermann S. Gunnarsson

Mæting kl. 9 við Bónus

Gengið verður upp frá Hörgshlíð og síðan eftir gamalli gönguleið að Vatnsfjarðarseli. Þar verða skoðaðar bæjartóftir og að því loknu gengið áfram yfir í Reykjarfjarðardal þar til komið er niður í botn Reykjarfjarðar. 

Vegalengd: 14-15 km, áætlaður göngutími 5 - 6 klst., hækkun upp í um 300 m hæð.

 

 

 

Súðavík – Sauradalur - Arnardalur          2 skór

Sunnudaginn 18. júní

Fararstjóri: Barði Ingibjartsson

Mæting kl. 9 við Bónus og 9.40 við bensínstöðina í Súðavík

Gangan byrjar í Súðavík og þaðan er gengið upp Sauradal og upp á Kika í um 400 m hæð. Þaðan er svo gengið niður í Arnardal.

Vegalengd 11 km, áætlaður göngutími 5 – 6 klst., hækkun upp í um 400 m.

 

 

 

Jónsmessuferð á Töflu í Dýrafirði (Kaldidalur - Hjarðardalur )           2 skór

Laugardaginn 24. júní

Fararstjóri: Sighvatur Jón Þórarinsson

Mæting kl. 18 við Bónus og 18.30 við Höfða í Dýrafirði

Ferðin hefst rétt neðan við bæinn í Fremri Hjarðardal. Þar er farið upp gróna hliðina og hjalla þar ofar. Smávægileg urð og grjót geta orðið á leiðinni upp á fjallið. Hlíðin er drjúg og getur tekið á óvana fætur. Þegar upp á brúnina er komið er aflíðandi halli fram undan með fönnum, malarbörðum og grjóti. Þegar nær dregur Töflunni er gróft grjót en ekki stórgrýtt. Taflan sjálf er í tæplega 700 m hæð. Grýtt upp á og tvær vörður taka þar á móti okkur. Eftir stopp á Töflunni er haldið fram fjallið og hækkum við okkur í um 730 m þar sem hæðst er farið. Þessi ganga ætti að vera þægileg en spurning um snjóalög. Gengið er á snjó niður í Kaldadal og ef bjart er og stillt veður er alveg eins von á því að þar sé KALT. Muna því að hafa hlý föt með – vettlinga og húfu. Þegar komið er niður úr Kaldadal beygjum við til hægri og höldum heim og niður Hjarðardalinn – reynum að fylgja kindagötum sem liggja þar hátt í dalnum en vísa okkur vegin niður á við og síðan fyrir ofan túns í Hjarðardal og endum á upphafs punkti ferðarinnar.

Ferðin ætti ekki að taka meira en 5 – 6 tíma en að sjálfsögðu, eins og í öllum gönguferðum, ræður sá síðasti. Vanmetið ekki leiðina.

 

 

 

Hvítanes – fjöruferð             1 skór

Laugardaginn 1.júlí

Fararstjóri: Eggert Stefánsson

Mæting kl. 9 við Bónus

Gengið um fjörur og nes. Frá Hvítanesi er gott útsýni yfir Ísafjarðardjúpið og Vigur. Það sem leynist í fjörunni við bæinn er það sem fær flesta til þess að nema staðar. Á klöppunum og skerjunum rétt fyrir utan liggja yfirleitt nokkrir selir og stundum nokkrir tugir þeirra. Það kæmi ekki á óvart ef að þátttakendur gæddu sér á veitingum að ferðalokum í Litlabæ.

Áætlaður göngutími 3 – 4klst.

 

 

 

Lokinhamraheiði      2 skór

Laugardaginn 8. júlí

Fararstjóri: Þórir Örn Guðmundsson

Mæting við Bónus kl. 9 og 9.45 við íþróttamiðstöðina á Þingeyri

Byrjað er á því að ganga fram og upp Lokinhamradal að austanverðu meðfram fjallinu Skeggja sem á þessari leið er oft nefndur Skorarfjall eftir mjög djúpum skorum sem skera sundur tröllaukin hamrabelti fjallsins, enda er þar þurrara undir fæti. Það er frekar bratt upp á Lokinhamraheiðina en heiðin sjálf í um 680 m hæð og örstutt og jafnvel stysta heiði á landinu, ekki nema fimm til sex skref! Síðan strax í bröttum sneiðingum norðaustur og niður í Lambadal og áfram út í Haukadal. Þaðan norður að Húsatúni.

Vegalengd 13,5 km, áætlaður göngutími 5 - 6 tímar, hækkun í um 680 m hæð.

 

 

 

Dalsheiði – stikuferð            2 skór

Laugardaginn 15. júlí

Fararstjórar: Emil Ingi Emilsson og Ólafur Engilbertsson

Mæting kl. 9 við Bónus

Dalsheiði stikuð að hluta eða um 5 km af henni og þá upp í um 670 m hæð.

Vegalengd 8 km , áætlaður tími 8 klst., gengið upp í um 700 m hæð.

Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 10 manns komist með í ferðina.

 

 

 

Unaðsdalur og nágrenni - þemaferð - blómaskoðunarferð       1 skór

Sunnudaginn 16. júlí

Fararstjóri: Rakel Þorbjörnsdóttir

Mæting kl. 11 í Dalbæ

Áhersla þessarar ferðar er á gróður Jarðar. Blóm og aðrar jurtir verða skoðuð og greind.

Ekki er vitað hversu langt er gengið. Það fer eftir því hversu athyglisverðar plöntur verða á vegi fólks. Spennandi valkostur þar sem sleginn er nýr tónn í flóru gönguferða félagsins.

Áætlaður tími: 4-5 klst.

 

 

 

Kirkjuferðir – sjö kirkjur á fjórum dögum        2 skór

  1. - 22. júlí

Fararstjóri: Björgvin Bjarnason

 

  1. Miðvikudagur 19. júlí

Frá Hrafnakletti í Bolungarvík kl. 9. Gengið að Hólskirkju og þaðan fram Syðridal

að Reiðhjallavirkjun, línuveg þar upp og Heiðarskarð að Fremri-Bakka í

Hnífsdal. Síðan að Hnífsdalskapellu og að Ísafjarðarkirkju. Sameiginlegt borðhald eftir göngu. Um 25 km.

 

  1. Fimmtudagur 20. júlí.

Frá Ísafjarðarkirkju kl. 9. Gengið inn Skutulsfjörð upp Dagverðardal og

þjóðveginn yfir Breiðadalsheiði. Að kirkjunni í Holti og þaðan að Flateyrarkirkju.

Sameiginlegt borðhald eftir göngu. Um 29 km.

 

  1. Föstudagur 21. júlí.

Frá Flateyrarkirkju kl. 9. Klofningsheiði Vatnadal og að Staðarkirkju Staðardal.

Þaðan fyrir Spilli og að Suðureyrarkirkju. Sameiginlegt borðhald eftir göngu. Um 15 km.

 

  1. Laugardagur 22 júlí.

Frá Suðureyri kl. 9. Gengið frá Suðureyri inn Súgandafjörð og að Gilsbrekku.

Gilsbrekkuheiði og niður Tungudal að Hólskirkju. Sameiginlegt borðhald eftir göngu. Um 24 km.

 

Hægt verður að fara í sund á öllum stöðunum eftir göngu og borðhald. Fræðsluþema verður um eina persónu á hverjum degi. Ekki er gert ráð fyrir því í skipulagi ferðanna að fólk gisti á áningarstöðum, þó það sé að sjálfsögðu leyfilegt. Nánari upplýsingar um ferðirnar verða birtar síðar.

 

 

 

Jökulfirðir (Hrafnfjörður – Furufjörður)         2 skór

Laugardaginn 29. júlí

Fararstjóri: Emil Ingi Emilsson

Mæting kl. 8 við Sundahöfn á Ísafirði

Siglt frá Sundahöfn á Ísafirði innst inn í Hrafnfjörð þar sem farið verður í land. Gengið frá sæluhúsinu í Hrafnfjarðarbotni upp úr firðinum yfir Skorarheiði. Fyrst er gengið eftir ruddri slóð til suðausturs upp með Skorará, um Andbrekkur og Skorardal þar sem farið er yfir ána á brú. Haldið í sömu átt eftir nokkuð bröttum sneiðingum þar til komið er upp á heiðina og fyrir sunnan Skorarvatn í um 200 metra hæð. Þaðan austur Furufjörð að sæluhúsinu við sjó í Furufirði. Gert er ráð fyrir góðu nestisstoppi og hvíld þar. Gengið til baka samdægurs yfir í Hrafnfjörð og siglt til Ísafjarðar um kvöldið.

Á heiðinni sést hið svipmikla fjall Gýgjarsporshamar vel en þar er sögð ein mesta álfabyggð á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað. Áhugavert svæði m.a. út frá sögu mannlífs og byggðar, þjóðsagna, jarðfræði og gróðurs.  

Vegalengd 16 km, áætlaður göngutími 8 - 9 klst., gengið upp í um 200 m hæð

Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com Upplýsingar um verð og nánari tilhögun ferðarinnar verða birtar síðar.

 

 

 

Þorfinnur       2 skór

Laugardaginn 12. ágúst

Fararstjórar: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Steinþór Bjarni Kristjánsson

Mæting kl. 9 við Bónus og kl. 9.30 við afleggjarann að Grafargili í Valþjófsdal

Stikuð leið upp á fjallið Þorfinn og meðfram brún þess. Þaðan blasir Önundarfjörður við. Leiðin er brött á kafla en þó er ekkert klifur.

Vegalengd 8,5 km, Göngutími 5 - 6 klst. Hækkun: 650 m.

 

 

 

Súgandafjörður - hjólaferð        2 hjól

Laugardaginn 19. ágúst

Fararstjóri: Ómar Smári Kristinsson

Kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði og kl. 10.20 á bílastæði fyrir ofan Botn og Birkihlíð                         Áður en farið er yfir fjarðarbotninn á grjótfyllingu er hjólað framhjá tilgátuhúsi í sögualdarstíl. Leiðin er fremur gróf. Hún liggur uppi í hlíð og niðri í fjöru. Hentar fjallahjólum og góðum malarhjólum. Ágæt leið fyrir fólk sem er að æfa sig á erfiðum vegum.                         Kílómetrafjöldi að Selárdal fram og til baka frá Botni er 14.5 km. Hjólatími með pásum: 2-3 klst.

 

 

 

Kistufell á Seljalandsdal      2 skór

Laugardaginn 26. ágúst

Fararstjóri: Magnús Ingi Jónsson

Lagt af stað frá virkjunarhúsi Reiðhjallavirkjunar í Syðridal kl. 10:00. Af Kistufelli er tignarlegt útsýni yfir Bolungarvík, Hnífsdal, Skutulsfjörð og Súgandafjörð.                   Gangan byrjar í 30 m. hæð og hæsti punktur er 785m. yfir sjó. Hækkun er því um 750 metrar en 95% leiðarinnar er á vegslóða. Gangan er rétt tæpir 12 km og áætlaður göngutími er 5-6 klst. með stoppi.

 

 

 

Grárófa         2 skór - ferð fellur niður

Laugardaginn 2. september

Fararstjóri: Sturla Páll Sturluson

Mæting kl. 9 við Bónus

Gömul og nokkuð strembin gönguleið á milli Súgandafjarðar og Bolungarvíkur. Nafnið á leiðinni er dregið af grárri þokurófu sem liggur stundum yfir á efsta hluta leiðarinnar. Leiðin liggur upp frá Selárdal og upp með Selárdalsá. Hinum megin við heiðina blasir Tungudalur við og liggur gönguleiðin þar niður í Bolungarvík.

Vegalengd 11,5 km, 600 m hæð, áætlaður göngutími 6 – 7 klst.

 

 

Kistufell á Seljalandsdal      2 skór

Sunnudaginn 3. september

Fararstjóri: Magnús Ingi Jónsson

Lagt af stað frá virkjunarhúsi Reiðhjallavirkjunar í Syðridal kl. 10:00. Af Kistufelli er tignarlegt útsýni yfir Bolungarvík, Hnífsdal, Skutulsfjörð og Súgandafjörð.                   Gangan byrjar í 30 m. hæð og hæsti punktur er 785m. yfir sjó. Hækkun er því um 750 metrar en 95% leiðarinnar er á vegslóða. Gangan er rétt tæpir 12 km og áætlaður göngutími er 5-6 klst. með stoppi.

 

 

Engidalur (Fossar – Fossadalur - Fossavatn – niður með Langá að stöðvarhúsi – Fossar)    1 skór

Laugardaginn 9.september

Fararstjóri: Örn Smári Gíslason

Mæting kl. 9 við bæinn Fossa í Engidal

Gengið frá bænum Fossum upp samnefndan dal að Fossavatni. Þaðan er svo genginn drjúgur spölur að Langá og niður með henni að stöðvarhúsi. Hringnum lokað við upphafsstað göngunnar.

Vegalengd  4 - 5 km. 340 m hæð, áætlaður göngutími 4 – 5 klst.

 

 

 

Óvissuferð       1 skór

Laugardaginn 16. september

Mæting kl. 9 við Bónus

Staður: má ekki segja frá því

Fararstjóri: kemur í ljós

Það verður engu ljóstrað upp um allt sem snýr að ferðinni. Það er þó alveg örugglega hægt að lofa ánægjulegri ferð, skemmtilegu fólki og súpu sem engan svíkur.

 

Ferðaskilmálar og reglur

Staðgreiða þarf í allar ferðir, verkefni og námskeið við bókun, nema annað sé tekið fram.

Verð í ferðir og námskeið félagsins er sett fram með tvennum hætti: Annars vegar fyrir félagsmenn FFÍ og hins vegar fyrir þá sem ekki eru skráðir félagsmenn. FFÍ áskilur sér rétt til að innheimta árgjald félagsins eða mismun almenns verðs og félagsverðs hafi félagsverð verið greitt án virkrar félagsaðildar.

1. Afbókunarskilmálar fyrir dagsferðir

Afbókun 7 dögum eða meira fyrir brottför: 85% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 6-3 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 2 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

2. Afbókunarskilmálar fyrir lengri ferðir (2 dagar og lengri)

Afbókun 30 dögum eða meira fyrir brottför: 85% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 29-14 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 13-7 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 6-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

3. Afslættir

Börn og unglingar, 7-18, í fylgd forráðamanna, greiða hálft gjald í ferðir félagsins. Börn, 6 ára og yngri, ferðast ókeypis með forráðamönnum sínum.

Félagsmenn í Ferðafélagi Ísfirðinga fá afslátt í allar ferðir félagsins. Afsláttur félagsmanna gildir einnig fyrir maka og börn að 18 ára aldri í fylgd félagsmanns.

4. Breytingar

Ferðafélag Ísfirðinga áskilur sér rétt til að hætta við, fresta ferð/námskeiði eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.

Ef félagið aflýsir ferð/námskeiði, er fargjald endurgreitt að fullu.

Ferðafélag Ísfirðinga áskilur sér rétt til að breyta, fresta eða endurskipuleggja dagskrá félagsins vegna sóttarvarfyrirmæla í tengslum við Covid 19 eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna

5. Tryggingar

Ferðafélag Ísfirðinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Félagið hvetur fólk til að kaupa ferða- og slysatryggingar fyrir ferðir.

6. Fyrirvarar

Þátttakendum í ferðum FFÍ er ljóst að för í óbyggðum getur verið áhættusöm. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð og skuldbinda sig með skráningu í ferð til að gera ekki kröfur á FÍ vegna mögulegs tjóns sem þeir verða fyrir í ferðinni.

Farþegar verða að velja ferðir sem hæfa þeirra líkamlega formi. Vinsamlega kynnið ykkur upplýsingar um útbúnað og veður áður en lagt er af stað.

7. Birting myndefnis

Þátttakendur í ferðum og námskeiðum FFÍ samþykkja með þátttöku sinni að félaginu sé að heimilt að taka myndir eða myndbönd af þátttakendum og nota í birtingu á heimasíðu, samfélagsmiðlum og prentmiðlum. Þátttakandi getur ávallt hafnað birtingu myndefnis af sér með því að senda póst á ferdafelag.isfirdinga@gmail.com.