Meðlimi ferðafélagsins langaði í söngbók. Þegar til voru peningar og ekki enn komið kóvít létu þeir verða af því. Skipuð var ritnefnd með formanni og ritara félagsins og einum óbreyttum meðlimi. Síðastnefndur, Ómar Smári Kristinsson, stýrði verkinu og safnaði mestu í það og fékk meira að segja borgað fyrir það. Það fékk kona hans, Nína Ivanova, reyndar líka. Hún sá um alla myndvinnslu og umbrot og að koma verkinu til prentara. Allt ferlið, frá því að ákveðið var að láta til skarar skríða uns bókin var komin í hendur fólks tók örfáa mánuði.
Líkt og gengur og gerist með söngbækur eru söngtextar í þessari. Sumar söngbækur hafa gítargrip. Ekki þessi. Hver nennir svosem að dröslast með gítar í gönguferðir? En það er ýmislegt í þessari bók sem ekki er að finna í venjulegum söngbókum. Hingað og þangað um bókina má lesa eitthvað fræðilegt svosem um söngiðkan og ferðamennsku á Vestfjörðum í gegnum tíðina eða hvernig haga skuli ferðum í samtímanum. Það eru líka gamanmál einsog öfugmælavísur, eða útúrsnúningarnir hans séra Péturs; pétrískar útgáfur á orðum sem tengjast ferðalögum. Trúlega er þetta eina söngbókin í heiminum sem skreytir sig með töflum og gröfum. Talnasukkið í bókinni er tengt virkninni í félaginu (fjöldi ferða eftir árum og svoleiðis gotterí) eða einhverjar landfræðilegar vestfirskar staðreyndir.
Meginkaflarnir í bókinni heita: Íslensku lögin okkar, Vestfirsku lögin okkar, Vestfirsku útlensku lögin okkar og Útlensku lögin okkar. Að minnsta kosti helmingurinn af okkar hjartkæru partýsöngvum er nefnilega af erlendum uppruna. Því er ekkert verið að leyna í söngbókinni. Þvert á móti er upprunans getið. Textinn er birtur bæði á íslensku og á upprunamálinu. Sum tungumál eru Íslendingum ekki töm, svo sem þýska og rússneska. Þá birtist þriðji textinn sem er hljóðskrift uppá íslensku af upprunatextanum. Útlensku textarnir eru með áherslumerkingum svo fólk viti hvar löngu tónarnir eiga að vera.
Þegar þetta er ritað, í febrúarlok 2021, er söngbókin tæplega eins árs gömul. Hún hefur lítið verið notuð, því það kom kóvít sem eyðilagði öll partý og stóran hluta af gönguferðum. Samkvæmt öruggum heimildum hefur bókin þó verið notuð í smærri hópum á óopinberum vettvangi og gefist vel. Það er von okkar sem stöndum að útgáfu bókarinnar að hún reynist gott veganesti í gönguferðunum og að fólk skemmti sér með söngins gleði. Þá er tilganginum (með þeirri ferð sem hófst með) útgáfu hennar náð.