Aðalfundur Ferðafélags Ísfirðinga haldinn miðvikudaginn 5. apríl 2023

Aðalfundur Ferðafélags Ísfirðinga haldinn miðvikudaginn 5. apríl 2023 kl. 2.000 í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins á Ísafirði.

Mætt: Emil Ingi Emilsson, Eggert Stefánsson, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Ómar Smári Kristinsson, Magnús Ingi Jónsson, Sturla Páll Sturluson, Hrönn Harðardóttir og Geir Harðarson.

Eggert var tilnefndur fundarstjóri og Ómar Smári fundarritari. Þeir skoruðust ekki undan og tilnefning þeirra var samþykkt einróma.

Dagskrá aðalfundarins:

 • Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs
 • Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
 • Lagabreytingar
 • Kosning formanns
 • Kosning tveggja stjórnarmanna
 • Kosning tveggja varamanna
 • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 • Ákvörðun félagsgjalds
 • Önnur mál

Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs:

Emil hélt efnismikla og vel undirbúna tölu um starfsemi félagsins á liðnu starfsári. Hann fór í stuttu máli yfir ferðirnar. Það athyglisverðasta var að engin ferð féll niður, þó að í sumum tilfellum hafi þurft að breyta um áætlun. Fjölbreytileiki ferðanna hafi farið vel í fólk, meðal annars að vera með ferðir í samvinnu við aðra. Síðasta ferðin var einmitt samvinnuverkefni með Háskólasetri Vestfjarða. Hann nefndi einnig að félagið væri búið að eignast nýjan fána félagsins sem hefði fyrst verið notaður í gönguferðinni á Kaldbak. Hann sagði einnig frá gangi ritunar félagsins og að hugsanlega verði gefinn út bæklingur á árinu um fyrsta hluta í starfsemi félagsins. Emil gerði fundarsetum ársins allmikil skil. Stjórnarfundur var einn en hann hefði setið tvo deildarfundi Ferðafélags Íslands. Þar voru rædd mörg og mikilvæg málefni, svo sem um öryggismál, árgjald, jafnvægi milli móðurfélags og deilda og ekki hvað síst siðferðisleg málefni sem hafa verið í brennidepli undanfarið. Gagnlegir fundir þar sem mörg mikilvæg mál voru til lykta rædd.

Emil ræddi einnig um starfið fram undan. Hann stiklaði á nokkrum atriðum sem hann taldi að þarft væri að leggja áherslu á og/eða ráðast í:

 1. Semja öryggisáætlun og vinna að umhverfisstefnu og faglegu ferli í málum sem falla undir hvers kyns ofbeldi þ.á.m. áreitni. Félagið lýtur sömu reglum og FÍ þar til þeirri vinnu er lokið.
 2. Þýða efni á fésbókarsíðu og heimasíðu yfir á ensku og pólsku.
 3. Hvetja fólk af erlendum uppruna til að ganga í félagið og/eða taka þátt í ferðum þess.
 4. Halda áfram að leita eftir samstarfi við aðra aðila.
 5. Halda hagnýtt námskeið næsta vetur

Fyrirspurnir eftir kynningu: Spurt var um lágmarksfjölda í félaginu, en það er víst einhver þannig kvóti til sem segir að það verði að vera 50 manns. Skráðir félagar FFÍ eru yfir 100 talsins. Einhver umræða fór líka fram um árgjald. Hún var tekin upp síðar á fundinum.

Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar

Magnús Ingi Jónsson, gjaldkeri félagsins, afhenti öllum fundagestum ítarlegan og auðlesinn ársreikning 2022. Þar stóð allt eins og stafur á bók. Einhver smá hallarekstur var á árinu og líka árið á undan en eigið fé félagsins er samt 1.131.805, þannig að það er í ágætum málum. Reikningarnir voru samþykktir með lófataki. Í fundarlok undirrituðu stjórnarmenn þá.

Fyrirspurnir eftir kynningu: Spurt var um félagsgjöld vegna misskilnings um fjölda félagsmanna. Það mál var leyst í skyndi. Þegar Ómar Smári sá að félagið er vel statt og að hann hafi fengið greitt fyrir kynningarvinnu í fyrra spurði hann hvort það mætti gerast aftur (hafði annars hugsað sér að gera það frítt). „Verður er verkamaðurinn launa sinna“ er viðkvæði formannsins þegar slíkt ber á góma.

 

Lagabreytingar

Engar lagabreytingar.

Kosning formanns

Ekki er komið að kosningu til formanns. Emil var á síðasta stjórnarfundi kosinn til tveggja ára.

Kosning tveggja stjórnarmanna

Eitt sæti var laust í aðalstjórn. Pernilla Rein gefur ekki kost á sér áfram þar. Gunnhildur Björk gaf kost á sér í hennar stað og var því samstundis tekið fagnandi af öllum fundargestum.

Kosning tveggja varamanna

Eitt sæti var laust í varastjórn. Helga Hausner gefur ekki kost á sér áfram þar. Eggert Stefánsson gaf kost á sér í hennar stað og var því samstundis tekið fagnandi af öllum fundargestum.

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

Engar breytingar. Skoðunarmenn eru Margrét Högnadóttir og Martha Kristín Pálmadóttir.

Ákvörðun félagsgjalds

Magnús Ingi lagði til að árgjaldið héldist í hendur við árgjald móðurfélagsins. Þannig hafi það verið undanfarið og gefið góða raun. Allir viðstaddir voru sammála því. Á aðalfundinum (undir þessum lið eða skýrslu formanns) var talað um skiptingu árgjaldsins milli móðurfélags og deilda og um ágóðann af félagsaðild, m.a að fá Árbók FÍ. Enginn á þessum fundi setti sig á móti því en Emil nefndi að á deildarfundunum hafi komið fram sú skoðun að það yrði valfrjálst hvort að félagsmenn keyptu bókina eða ekki.

Fundarhlé

Starfsmaður frá Edinborg bistro mætti með bakka, hlaðinn brauði með kæfu og sultu. Með því var stór kanna af kaffi. Fundargestir nutu veitinganna. Það tókst að klára þær í fundarlok.

Önnur mál

Magnús Ingi spurði hvort félagsskírteinin verði rafræn. Um þessar mundir eru þau bæði þannig og á pappír. Það hafi valdið ruglingi. Emil upplýsti um að þau mál hafi ekki verið rædd á FÍ-fundunum. Varla sé stefnubreytinga að vænta hvað það varðaði að þau yrðu öll stafræn í framtíðinni,

Eggert benti á gestabókavandann í Naustahvilft. Hann hefur verið duglegur að skipta um bók þegar hann hefur verið þar á ferðinni. Sturla Páll upplýsti að nú væri þar bæði bókarlaust og kassinn laskaður. Öllum ber saman um að FFÍ haldi áfram að sinna gestabókinni. Eggert á enn eftir að skila síðustu bókinni á Safnahúsið. Hann er að reyna að telja nöfnin í henni. Það er ekki auðvelt verk. Það vita samt allir að umferðin upp í Naustahvilft er þung.

Eggert sagði einnig frá vandræðum með ferðina hans í Hvítanes 10. júní næstkomandi. Hann hafi óvart tvíbókað sig þann dag. Fólk hvatti hann til að missa ekki af hinum viðburðinum en reyna þess í stað að finna sér staðgengil. Sá besti í það, Kristján í Hvítanesi, segist ekki vera fær um að taka ferðina að sér.

Ómar Smári hélt myndakynningu um væntanlegar ferðir þessa árs. Hann fékk til þess venju fremur rúman tíma, þar sem aðalfundurinn gekk vel fyrir sig. Ekki veitti af, því hann var með mikið af myndefni, ljósmyndum og kortum, auk auglýsinganna sem hann útbjó fyrir hverja ferð (þær sem birtast á fésbókarsíðu og heimasíðu félagsins). Allir fundargestir nema einn (og kannski Eggert) áttu það sameiginlegt að verða fararstjórar í einni eða fleirum þessara ferða. Það skorti því ekki umræðuefnið. Enda fór svo að kynningin stóð fram yfir fundartíma. Fundarstjóri gerði viðvart korter yfir tíu og kynningunni lauk klukkan hálfellefu. Þá var klappað og fundi slitið.

Gamansaga

Gamansaga úr ferðum hjá ferðafélaginu Ferlir en FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík

Félögum stóð til boða að kaupa derhúfur hjá félaginu á sínum tíma.Til gamans má geta þess að tvær húfur, sem týndust, . komu í leitirnar skömmu síðar. Aðra hafði eigandinn lagt frá sér í Brennisteinsfjöllum. Þremur dögum síðar var bankað upp á hjá honum og honum afhent húfan. Hina fann eigandinn á snaga í rakarastofu í borginni og uppgötvaði þá að húfunni hafði hann týnt á Bláfjallasvæðinu rúmri viku fyrr. Þriðja húfan týndist svo norðvestan við Einbúa, sunnan við Kastið, fyrir stuttu. Hennar er vænst í hús innan tíðar.
Lygilegasta sanna sagan er þó sú er segir af FERLIRsfélaganum, sem varð það á að stíga óvart með annan fótinn fram af snjóhengju á bjargbrún. Honum til happs náði hann að grípa í húfuderið og að hanga á því nógu lengi til að geta stigið skrefið til baka á fast. Síðan hefur hann jafnvel og sofið með húfuna – svona til öryggis…

Námskeið í rötun

Orðsending frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Vilt þú læra að rata?
Spennandi námskeið haldið í samstarfi við Ferðafélag Ísfirðinga. Ferðafélagið niðurgreiðir 50% af heildarverði til almennra félagsmanna sinna en allt gjaldið fyrir fararstjóra í ferðum félagsins á komandi sumri. Frekari upplýsingar og skráning á heimasíðu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða frmst.is

Litla ferðafélagið í Bolungarvík

Ferðafélag Ísfirðinga og tvö fyrri líf þess eru ekki einu ferðafélögin sem stofnuð hafa verið á norðanverðum Vestfjörðum. Á fyrri hluta 20. aldar varð til ferðafélag í Bolungarvík. Hér er örlítill fróðleiksmoli um það. Hann er fenginn úr minningargrein um Guðmund Pálsson, stofnanda félagsins. Jónatan Einarsson, vinur hans, ritaði:

“Á milli heimila okkar var mikill samgangur og vinátta. Við Guðmundur vorum leikfélagar og stofnuðum ásamt fleiri ungum strákum Litla ferðafélagið sem stóð fyrir útilegum, fjallaferðum, skíðaferðum o.fl. Með því fórum við í margar ógleymanlegar ferðir, klifum flest fjöll í kringum Bolungarvík, fórum í útilegur víðsvegar um Ísafjarðardjúp og í hrikalegri náttúru Vestfjarða dreymdi okkur marga framtíðardrauma. Upp úr ferðafélaginu var stofnað Skátafélagið Gagnherjar og var Guðmundur aðalhvatamaður þess og fyrsti formaður. Guðmundur var alla tíð mikið náttúrubarn og útivistarmaður og í skátafélaginu gat hann sameinað það áhugamál sitt og þá lífsstefnu sem hann alla tíð hafði í heiðri, að ganga aldrei á bak orða sinna. Guðmundur var einnig virkur félagi í Ungmennafélagi Bolungarvíkur og formaður íþróttaráðs um árabil.”

Saga söngbókarinnar

Meðlimi ferðafélagsins langaði í söngbók. Þegar til voru peningar og ekki enn komið kóvít létu þeir verða af því. Skipuð var ritnefnd með formanni og ritara félagsins og einum óbreyttum meðlimi. Síðastnefndur, Ómar Smári Kristinsson, stýrði verkinu og safnaði mestu í það og fékk meira að segja borgað fyrir það. Það fékk kona hans, Nína Ivanova, reyndar líka. Hún sá um alla myndvinnslu og umbrot og að koma verkinu til prentara. Allt ferlið, frá því að ákveðið var að láta til skarar skríða uns bókin var komin í hendur fólks tók örfáa mánuði.

Líkt og gengur og gerist með söngbækur eru söngtextar í þessari. Sumar söngbækur hafa gítargrip. Ekki þessi. Hver nennir svosem að dröslast með gítar í gönguferðir? En það er ýmislegt í þessari bók sem ekki er að finna í venjulegum söngbókum. Hingað og þangað um bókina má lesa eitthvað fræðilegt svosem um söngiðkan og ferðamennsku á Vestfjörðum í gegnum tíðina eða hvernig haga skuli ferðum í samtímanum. Það eru líka gamanmál einsog öfugmælavísur, eða útúrsnúningarnir hans séra Péturs; pétrískar útgáfur á orðum sem tengjast ferðalögum. Trúlega er þetta eina söngbókin í heiminum sem skreytir sig með töflum og gröfum. Talnasukkið í bókinni er tengt virkninni í félaginu (fjöldi ferða eftir árum og svoleiðis gotterí) eða einhverjar landfræðilegar vestfirskar staðreyndir.

Meginkaflarnir í bókinni heita: Íslensku lögin okkar, Vestfirsku lögin okkar, Vestfirsku útlensku lögin okkar og Útlensku lögin okkar. Að minnsta kosti helmingurinn af okkar hjartkæru partýsöngvum er nefnilega af erlendum uppruna. Því er ekkert verið að leyna í söngbókinni. Þvert á móti er upprunans getið. Textinn er birtur bæði á íslensku og á upprunamálinu. Sum tungumál eru Íslendingum ekki töm, svo sem þýska og rússneska. Þá birtist þriðji textinn sem er hljóðskrift uppá íslensku af upprunatextanum. Útlensku textarnir eru með áherslumerkingum svo fólk viti hvar löngu tónarnir eiga að vera.

Þegar þetta er ritað, í febrúarlok 2021, er söngbókin tæplega eins árs gömul. Hún hefur lítið verið notuð, því það kom kóvít sem eyðilagði öll partý og stóran hluta af gönguferðum. Samkvæmt öruggum heimildum hefur bókin þó verið notuð í smærri hópum á óopinberum vettvangi og gefist vel. Það er von okkar sem stöndum að útgáfu bókarinnar að hún reynist gott veganesti í gönguferðunum og að fólk skemmti sér með söngins gleði.   Þá er tilganginum (með þeirri ferð sem hófst með) útgáfu hennar náð.