Aðalfundur Ferðafélags Ísfirðinga haldinn þriðjudaginn 19. mars 2024 kl. 20:00 í Bryggjusal Edinborgarhússins á Ísafirði.
Mættir: Emil Ingi Emilsson, Eggert Stefánsson, Ómar Smári Kristinsson, Magnús Ingi Jónsson, Sturla Páll Sturluson og Örn Smári Gíslason.
Eggert var tilnefndur fundarstjóri og Ómar Smári fundarritari. Þeir skoruðust ekki undan og tilnefning þeirra var samþykkt einróma. Sturla Páll tók ljósmyndir af fundinum.
Dagskrá aðalfundarins:
Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs
Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
Lagabreytingar
Kosning formanns
Kosning tveggja stjórnarmanna
Kosning tveggja varamanna
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Ákvörðun félagsgjalds
Önnur mál
Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs:
Emil hóf erindi sitt eð því að minnast nýlátins félaga, Ásdísar Margrétar frá Miðhúsum. Að því loknu fór hann yfir starf félagsins á liðnu starfsári. Þar fór mest fyrir lýsingu á ferðunum og fararstjórunum. Hann talaði um samstarf við önnur félög en það voru einmitt farnar ferðir í samstarfi við Snjáfjallasetur og Kómedíuleikhúsið. Þá sagði hann frá tveimur stjórnarfundum sem haldnir voru á starfsárinu. Á þeim var farið yfir ýmis mál svo sem hvernig peningum félagsins skuli ráðstafað, hvernig fá megi fleira fólk í félagið, um ritun sögu félagsins og fleira. Hann kom aðeins inn á gestabókamálin en þau voru tekin betur fyrir undir liðnum önnur mál. Hann sagði frá starfi gönguferðarnefndarinnar. Loks flutti hann eitt ljóð.
Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
Magnús Ingi Jónsson, gjaldkeri félagsins, varpaði ársreikningi 2023 upp á tjald. Þar stóð allt eins og stafur á bók. Hagnaður ársins voru rétt rúmar 100.000 krónur. Eigið fé félagsins samkvæmt reikningnum er 1.232.179 kr. en er í rauninni hærra, því félagsgjöld ársins 2024 eru byrjuð að streyma inn. Smávegis var rætt um bókina og félagsgjöldin og hvaða félagsmenn borga/borga ekki og hversu lengi síðarnefndir eru í félaginu. Reikningarnir voru samþykktir með lófataki og Magnúsi Inga hrósað fyrir vel unnin störf. Í fundarlok undirrituðu stjórnarmenn þá.
Lagabreytingar
Engar lagabreytingar og ekkert sem þarf að taka til athugunar.
Kosning formanns
Tveggja ára tímabili Emils sem formanns er lokið. Hann auglýsti eftir framboði til formanns á fésbókarsíðu félagsins og á aðalfundinum. Enginn bauð sig fram. Hann kvaðst ekki vilja skilja félagið eftir formannslaust og bauðst til að sitja áfram næstu tvö ár. Hann uppskar lófatak. Hann sagðist hafa tekið saman tölur um vinnuframlag formanns og nefndi 20 klst. á ári. Fundargestir töldu það vanáætlað, hafandi orðið vitni að mikilli sjálfboðavinnu. Emil viðraði hugmynd um að félagið réði framkvæmdastjóra sem gæti sinnt ýmsum viðburðum og fleiri verkefnum sem annars lenda á formanni.
Kosning tveggja stjórnarmanna
Báðir stjórnarmeðlimirnir sem setið hafa í tvö ár vilja hætta. Það eru þeir Sturla Páll Sturluson og Magnús Ingi Jónsson, gjaldkeri. Síðarnefndur sagðist munu starfa áfram uns nýr gjaldkeri finnst og að taka sér góðan tíma til að koma honum vel inn í hlutverkið. Nýr gjaldkeri fannst nefnilega ekki á aðalfundinum og ekki heldur neinn til að taka við hlutverki Sturlu Páls. Var þó tekið fram að ekki þyrfti að veljast gjaldkeri þar á staðnum, því stjórninni er heimilt að skipta með sér verkum.
Kosning tveggja varamanna
Eggert Stefánsson situr áfram sem varamaður. Hann afþakkaði boð um að vera „hækkaður í tign“ og setjast í stjórnina. Ómar Smári Kristinsson, formaður göngunefndar, bætti á sig titlum og gerðist varamaður. Hann tekur sæti Hildar Valsdóttur sem lætur af sínu embætti.
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
Martha Kristín Pálmadóttir heldur áfram sem skoðunarmaður en Margrét Högnadóttir hættir. Fráfarandi gjaldkeri félagsins, Magnús Ingi Jónsson, tekur hennar sæti.
Ákvörðun félagsgjalds
Magnús Ingi, gjaldkeri, er byrjaður að rukka fyrir félagsaðild og árbók, 8.900 kr. Hann tók fram að með því hafi hann tekið fram fyrir hendur aðalfundarins og bauð ekki upp á mótmæli. Engan fýsti að hafa þau í frammi.
Önnur mál
Emil hóf þennan lið með því að ítreka að halda þyrfti annan aðalfund í vor. Málið bar af og til á góma (hvenær skyldi hann haldinn og hvað skyldi hann heita). Í fundarlok, þegar fundargestir voru búnir að skoða stundarskrár sínar, var ákveðið að halda fundinn þriðjudaginn 23. apríl. Titill komst á hreint eftir að Eggert fundarstjóri sleit fundi. Hann gæti þá ekki heitað framhaldsfundur heldur aukafundur.
Emil talaði, sem oft áður, um nauðsyn þess að kynna félagið og starfsemi þess fyrir fleirum en íslenskumælandi fólki. Hann vill að efni heimasíðunnar sé til á fleiri málum, að minnsta kosti ensku og einhverju Austur-Evrópumáli. Nefndi hann Nínu Ivanovu, hönnuð síðunnar, í því samhengi. Sjálfur hafði hann athugað þjónustu þýðingafyrirtækja en hrökklaðist frá vegna hás verðlags.
Í beinu framhaldi af því velti Emil upp hugmyndum um ferðir sem sérsniðnar væru að útlendingum og þá þróaðist umræðan út í upprifjanir á öðrum sérferðum og ferðum í samstarfi við önnur félög og að gjarnan mætti hafa meira af slíkum ferðum alls konar.
Fundargestir veltu einnig námskeiðum fyrir sér, ýmist fyrir fararstjóra eða félagsmenn almennt. Rifjað var upp hvers kyns námskeið hafi verið haldin og vöngum velt yfir hverju mætti bæta við.
Rætt var um gestabókakassana væntanlegu á Arnarnúpi, Sandafelli og Kistufelli sem ferðafélagið ætlar að koma upp og hafa veg og vanda að. Eggert rakti sögu Sandafellskassans. Hann verður samstarfsverkefni ferðafélagsins og íbúasamtakanna á Þingeyri.
Sturla spurði um hvernig staðan væri á samstarfi félagsins við gönguhátíðina í Súðavík. Það liggur niðri eins og er en má gjarnan hefjast á ný. Vonast er til að Súðvíkingar eigi frumkvæði að því. Ferðafélagið hefur, eftir sem áður, verið í samstarfi við Barða Ingibjartsson sem var leisögumaður í fyrra og verður það einnig sumarið 2024.
Loks reifaði Emil stöðuna á ritun sögu félagsins. Jón Hallfreð Engilbertsson, heitinn, var kominn af stað með söfnun gagna um þau félög sem Ferðafélag Ísfirðinga spratt upp úr. Ekkja Jóns Hallfreðs benti Emil á mág sinn, Ólaf. Hann er fræðimaður sem gæti hugsanlega haldið áfram með verk bróður síns. Hann vill þó engu lofa. Hugmyndin er að sagan komi út sem bæklingur, fremur en bók.
Áður en Eggert sleit fundi sagði hann spaugilega sögu af villum í gönguferð á vegum félagsins. Emil bætti við annarri hrakfarasögu af sömu slóðum.
Kaffi og meðlæti voru á staðnum, eins og hver gat í sig látið, enda var búist við að fleiri mættu á fundinn. Þessa var neytt fyrir og eftir fund og í einu örstuttu hléi. Fundi lauk um kl. hálftíu.