Gönguferð um Keldudal 29. júní 2019

Burt hið illa víkja verður, vonska stenst ei nein, þrautseig hönd hins göfga góða græðir sár og mein. Guðadropinn holað hefur heimsins vítisstein. 
(Úr kvæðinu Dropinn holar steininn sem Sigurður Z. Gíslason orti um látinn smælingja) 

Þannig byrjar grein sem Hjörtur Þórarinsson skrifar til minningar um Sigurð Z. Gíslason sem var prestur í Sandaprestakalli í Dýrafirði. Þar þjónaði hann þar til hann féll frá 1. janúar 1943, er snjóskriða féll á hann á leið til útkirkju hans að Hrauni í Keldudal.
Gunnhildur leiðsögumaður sagði okkur frá honum og þessari síðustu ferð hans í gönguferðinni. Þar komu fram ýmsar upplýsingar um hann m.a. um framlag hans varðandi mæðradaginn en hann vakti fyrstur manna máls á því að helga mæðrum einn dag á ári. Hann felldi einnig niður íþyngjandi kvaðir á Hraunsbændum og hafði sterkar skoðanir á ýmsum mannúðarmálum.
Einnig voru nokkrar vangaveltur um það fyrir hvað skammstöfunin í millinafninu stæði fyrir. Í þessari sömu minningargrein standa einnig m.a. annars eftirfarandi orð: Sálgæsla hans var víðfeðm og næm. Það kom í hans hlut á stríðsárunum að færa mörgum ekkjum og föðurlausum börnum þá sorgarfregn að skip ástvina þeirra hefði farist eða verið skotið niður. Í þessar vitjanir tók hann stundum eldri dóttur sína og bað hana að vera hjá börnunum og tala við þau meðan hann ræddi sorgaratburðinn við móðurina og heimilisfólkið. Börn skilja oft betur tilfinningalíf hvers annars heldur en fullorðnir. Óafvitandi var hann þarna að undirbúa hana undir það óvænta áfall er hún og fjölskyldan máttu þola nokkru síðar. Útfararræður hans voru áhrifaríkar og eftirminnilegar. Við eina jarðarför lagði hann út af gríska málshættinum: “Dropinn holar steininn”. Það sem gerði þessa minningarathöfn hans sérstaka var tvennt, þarna var um að ræða einn af hinum minnstu bræðrum mannfélagsins, fátæka konu í lægstu þrepum mannfélagsins, sem hann var að kveðja. Minningarræðan var þrungin kærleika, næmleika og skilningi hins kristna manns. Í sannleika minnist hann orða Krists. “Að eins og þér eruð mínum minnstu bræðrum þannig eruð þér mér.”
Þess má að lokum geta að sr. Sigurður var faðir Jóns bassa hljómlistarmanns og Diddi fiðla er barnabarn hans.

Gönguferð um Snæfjallaströnd 11. júlí 2020. Minnispunktar fararstjóra.

Ferðafélag Ísafjarðar

Gönguferð – Snæfjallaströnd – 11.júlí. 2020

Heil og sæl

Hér kemur ferðaáætlunin.

Tímasetning, staður Hvað gerum við?
Lagt af stað kl. 08.00- Sundahöfn á Ísafirði Mæta kl. 7:30 – gott að hafa tíma til að ganga frá greiðslum.
10:00 – Tyrðilmýri

Förum með bátnum Ölver og í gúmmíbát í land.

Páll Jóhannesson og Anna Magnúsdóttir flytja frá Bæjum árið 1995 og þar með lagðist öll byggð í eyði í hreppnum, Unaðsdalur 1993.

 

Kynning þátttakenda, yfirlit ferðar, söguspjall um Kaldalón (Lónhóll og Trymbilstaðir), Lónseyri, Bæi, kúgildisskafl og Bæjadrauginn, Lyngholt og Salbjörgu Jóhannsdóttur ljósmóður, Tyrðilmýri, Mýravirkjun (bændur og síðar OV) og Unaðsdal sem er landnámsjörð – Ólafur jafnakollur en hann nam Langadals- og Snæfjallaströnd allt til Sandeyraróss), kirkjan

Dalbær- Snjáfjallasetur – Steinhús

Búseta og mannlíf almennt

Hreppamörk annars vegar við ána Mórillu í Kaldalóni og hins vegar við lækinn Míganda í Vébjarnarnúp.

Gerum nokkrar æfingar og tökum lagið áður en ferðin hefst. Raddprófun!

10:45 – Hávarðarstaðir Fornminjar sem eru friðaðar – Hávarðarsaga Ísfirðings – söguspjall
Skeljavík – Bergsel Tóftir og nytjar Æðeyjarbænda
Æðey – Djúphólmi – Hólmasund Búseta og mannlíf, stærst eyja í Ísafjarðardjúpi, láglend en hún er hæst 34 m. y.s. við svokallaða Stóruborg, verið í byggð um aldir, Jónas Helgason og Katrín Alexíusdóttir voru síðustu bændur, vetrarmenn undir það síðasta.

Sauðfjárhald, sjóróðrar, fugla- og dúntekja. Mikið fuglalíf mest af æðarfugli en einnig teistu og nokkuð um lunda.

Spánverjavíg – 5 drepnir í eynni.

Grímshamarkleif Það er smáskafl undir kleifinni að utanverðu en við sigrum þessa smáhindrun með glæsibrag
Garðar Munnmæli um býli til forna, kirkja, Kirkjusteinar og Kirkjutungur, Garðabryggja,…
Eyjarhlíð – reyndar aðeins sýnd vera á milli skarða á korti en nær lengra inn eftir ströndu – nafnið kennt við Æðey Hlíðaburkni – hefur aðeins fundist á tveimur stöðum á landinu – Hesteyri og í Eyjarhlíð á Snæfjallaströnd (Hörður Kristinsson,2011), tignarlegt hamrabelti,…
Innraskarð  
Hlíðará, Hlíðarhús en bærinn er um 7 km frá Unaðsdal, Hlíðarhús fóru í eyði 1932 en enn mótar mjög vel fyrir rústum eða tóftum (tóttum) Nestistími

Búseta og mannlíf, …

Horblettur – tvö býli nefnd Hlíðarhús – byggð í landi Æðeyjar – einnig nokkur íveruhús eða tómthúsbýli – 5 fjölskyldur um aldamótin 1900 – síðast bjuggu þarna Egill Jónsson og Guðrún Jónsdóttir sem síðar fluttu að Kambsnesi við Álftafjörð og síðar að Ytrihúsum í Arnardal við Skutulsfjörð.

Það brestur á með söng!

Möngufoss í Hlíðará (Skarká) 80 – 100 m. hár, tígulegastur fossa við Ísafjarðardjúp, munnmælasaga um fjársjóð, Margrét Þórðardóttir – einþáttungur Gunnhildar Bjarkar Elíasdóttur
Vogar – Skarðsrjóður Sléttar grundir, kjarr, vel gróið berjalyng og mikil og lagskipt hamraþil.
Ytraskarð Gönguleið yfir í Grunnavík – við förum hana ekki a.m.k. ekki í þetta skiptið
Hraun – Skarðshraun Jarðfræði – mjög gott berjaland (sennilega lítið um ber núna), gatan víða rudd og upphlaðin,
Naustavík Búseta og mannlíf, skipanaust, Ótúel Vagnsson,
Hóltún Tóttir af býli,
Skarð – eyðibýli tæpa 11 km frá Unaðsdal, fór í eyði 1938 og tók síðan  af í snjóflóði 1944 – bærinn stóð við Ytriskarðsá, Nestistími

Búseta og mannlíf, alþýðumaðurinn og skrifarinn Bjarni Jónsson, Jakob Kolbeinsson bjó þar síðast ásamt eiginkonu sinni, Símoníu Sigurðardóttur sem fluttu þaðan til Ísafjarðar.

Sandeyri – rúmlega 15 km frá Unaðsdal – fór í eyði 1952 –  Búseta og mannlíf, Spánverjavígin – 13 drepnir , Ari í Ögri, Jón lærði Guðmundsson, vatnsaflsvirkjun, löngum stórbýli, reisulegt tveggja hæða steinhús,

Það brestur á með söng!

Berjadalsá – um 16,5 km. frá Unaðsdal – Búseta og mannlíf, á bökkum árinnar stóðu nokkur tómthúsbýli, um og fyrir aldamótin 1900 og þaðan stunduðu menn útróðra m.a. vermenn úr Strandasýslu, áin skiptir löndum á milli Sandeyrar og Snæfjalla, leiðin upp á Snæfjallaheiði liggur upp með Íralæk rétt utan við Berjadalsá upp sneiðinga í svonefndri Kinn,  Sumarliði póstur bjó þar í Samúelshúsi við Berjadalsá, rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson og sagan Harmur englanna (2009), Friðrikka Jónína Jónsdóttir Búsk og hennar eiginmaður Betúel Jón Friðriksson. Þarna bjuggu einnig á tímabili móðurforeldrar Steins Steinarrs
Snæfjöll – rúmum 17,5 km frá Unaðsdal – búið hér til ársins 1948 Nestistími

Búseta og mannlíf, skóli, kirkjustaður og prestssetur, kirkjugarður, Margrét Þórðardóttir og Sr. Tómas Þórðarson, síðasti prestur var Sr. Hjalti Þorláksson sem hlýtur frekar ónotaleg eftirmæli í æviskrám dr. Páls Eggerts Ólasonar.

Snæfjalladraugurinn, Snæfjallabryggja, Jón lærði Guðmundsson, landnámsjörð (Þórólfur fasthaldi en hann nam land frá Sandeyrará til Gýgjarsporsár.

Rósinkar Kolbeinsson og Jakobína Gísladóttir, Ólafur Pétursson og Sigríður Samúelsdóttir.

Ótúel Vagnsson,…

Berggangur er nefnist Snæfjallabryggja og e.t.v. sami berggangur og rís handan Djúps og nefnist Arnarneshamar

Skóli og þinghús hreppsins þar á sínum tíma. (brotinn skorsteinn í húsarústunum)

Það brestur á með söng.

Gullhúsá – um 18 km frá Unaðsdal – búið til ársins 1947 í Maríasarhúsi Búseta og mannlíf

Marías Jakobsson og Guðrún Jónsdóttir,

Gísli Jón Gíslason og Guðmundína Ingimundardóttir

Berurjóður, búsetu lauk 1943 Búseta og mannlíf, Hafliði Gunnarsson og María Pálmadóttir, Hafliði var lipur í klettum fram eftir ævi og náði oft í fé sem komið var í ógöngur í Bjarnarnúpi
Snæfjöll – kl. 18:30 Heimferð – siglt út fyrir Vébjarnarnúp ef það er tími fyrir siglingu.

Það brestur á með söng!

Fyrir utan Berurjóður Togarinn Notts County og strand hans 1968 (Ross Cleveland og Heiðrún II +)
Súrnidalur, Mígandi, Vébjarnarnúpur um 400 m hátt þverhnípt bjarg í fjöru á um þriggja km kafla Sumarliði póstur og hans síðasta póstferð 1920, Vébjörn og meinleg örlög hans, munnmælasaga um Súrnadal
Dokkan á Ísafirði ?  Djúpið?

 

Greiðslur: við brottför greiða þeir sem eru félagsmenn 7.500 kr. en aðrir 10.000 kr. Það er hægt að greiða með greiðslukorti.

Vellíðan og öryggi: ég legg að sjálfsögðu gríðarlega mikla áherslu á þessa tvo þætti. Það er mikilvægt að öllum líði vel í ferðinni en það tryggjum við með því að hugsa jákvætt, gefa af okkur og vera tilbúin að taka við hjá öðrum.

Það eru svo ákveðin öryggisatriði sem nauðsynlegt er að fara eftir í ferðinni.

Í bátnum er mikilvægt að hlusta á og fara í öllu eftir fyrirmælum skipstjóra hvað varðar öryggi í bátsferðinni og þá ekki hvað síst þegar farið er í gúmmíbátinn og úr honum aftur.  Það er því miður ekki búið að setja niður flotbryggjuna við aðstöðuna við bæinn Tyrðilmýri en það verður engin hindrun því landtaka mun auðveldlega takast með lagni og varkárni. 

Í gönguferðinni sjálfri er það ég sem fararstjóri sem ber alla ábyrgð. Ég legg gríðarlega mikla áherslu á öryggisþáttinn. Ég verð alltaf fremstur í göngunni og mun einnig fá nokkra sjálfboðaliða til að skiptast á um að vera aftast. Skyndihjálpartaska verður einnig með sem staðalbúnaður. 

Rætur: Ég veit einnig að sum ykkar eigið rætur að rekja til bæja á göngusvæðinu og það er bara sjálfsagt að hleypa ykkur að með upplýsingum um það. Það gerir gönguna bara skemmtilegri og um leið persónulegri. Takið þetta samt ekki of persónulega!

Umsjón með tónlist og söng hefur Ingibjörg G. Guðmundsdóttir.

Helga Hausner mun sjá um fræðslu um gróður og plöntur en þess má geta að á göngusvæðinu eru margar mjög fágætar plöntur s.s. dökkasef, ferlaufungur, fjallabláklukka, hrísastör, línarfi, mánajurt, skollaber, skollakambur, þúsundblaðarós og síðast en ekki síst hlíðaburkni.

Þúsundblaðarósin má segja að sé auðkennisplanta strandarinnar en þetta er stórvaxinn burkni sem vex eingöngu í snjódældum.

Gunnhildur Björk Elíasardóttir mun flytja einþáttung um Margréti Þórðardóttur við Möngufoss.

Látið mig endilega vita ef það eru einhverjar séróskir.

Það er einnig nauðsynlegt að skoða vel veðurspár kvöldið fyrir brottför og klæða sig eftir veðri, hafa með sér gott og næringarríkt nesti og síðast en ekki síst jákvætt hugarfar! Við látum ekkert stoppa okkur og þær hindranir sem verða á vegi okkar sigrum við.

Sjáumst hress og kát á laugardaginn!

„Kvöld“

Eitt kvöld, eitt kvöld er sól til viðar sígur
og svalar bárur lauga fjörustein
og upp af bláum öldum mistrið stígur
og úðans perlur titra á skógargrein
og handan yfir hafið til mín flýgur
eitt heiðríkt vor sem læknar gömul mein.
Eitt kvöld, eitt kvöld er sól til viðar sígur
og svalar bárur lauga fjörustein.
                    (Dósóþeus Tímótheusson Djúpmaður.)

 

Búnaðarlistar

Búnaðarlistar:

Flestar ferðir Ferðafélags Ísfirðinga eru dagsferðir. Einstöku sinnum eru farnar trússferðir. Ferðafélag Íslands lánaði þessa lista sem sýna hvað taka skuli með í dagsferðir og trússferðir.

Dagsferð

Pakkað fyrir dagsferð

Dagsferðir eru mismunandi og geta tekið frá örfáum klukkustundum upp í hálfan sólarhring.  Listinn hér að neðan er því ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Trússferð / bækistöðvarferð

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur

Ný heimasíða ferdafis.is

Ávarp heimasíðusmiðsins í mars 2021.

Nína Ivanova, 20. mars 2021.

Hæ, gott fólk.
ferðafís punktur ís hljómar vel og verður nafn Férðafélags Ísfirðinga á netinu!
Þetta er allt að koma.

 • Við keyptum lén ferdafis.is hjá ÍSNIC og árgjald léns er 6.293 kr.
 • Síða verður hýst hjá Snerpu, lénhýsing Gull sem kostar 2.990 kr. á mánuði.
  Innifalið er:
  Allt að 5 GB af efni á vefþjóni og FTP aðgangur
  SSL lykill frá Lets Encrypt
  Rekstur tveggja nafnamiðlara
  5 netföng innifalið með 2GB pósthólfi
  MySQL gagnagrunnur
  Ruslpóstvörn
  Dagleg afritun út úr húsi
  Ekkert stofngjald 
 • Til að setja síðu á rétta lén ég – heimasíðusmiður – þarf að fá kortanúmer hjá öllum félögum í FFÍ, blóðflokk og nöfn barnabarna –  DJÓK – ég þarf bara aðgang að ISNIC innskráningu og þá getum við keypt áskrift í Snerpu.
  Þá mun ég flytja síðu frá tímabundnum stað sem hún er núna á (landmannalaugar.info/ffi) – heim!
 • Flest innihaldi er komið, grind er eins og hún er.
  Það má gera tillögur um stafastærð, lit og óskir um auka efnisflokka. Kannski tek ég mark á einhverju.
 • Heimasíðu þarf að halda við – venjulega kostar þannig vinna um 4.000 á mánuði. Við getum samið vestfirskan díl um það…
  Það þarf líka að fylla síðu með nýju efni og Nína mun reyna að kenna Smára, Emili og hverjum sem er aðal handtök (sem valda ekki martröðum) og þá sjáum við til hvernig gengur. Og semjum þá ef þarf.

Við eigum eftir að setja myndir af eldri ferðum – undir MYNDIR, 2010 og 2020 eru komnar. Efni í hínar férðir er allt til – Smári er búinn að græja það allt nú þegar. En heimasíðusmiður er að setja upp sýningu 24.03. í gallerí Úthverfu  og er í hlutverki listamannsins þessa dagana með tilheyrandi stressi og hárreitingum.
Takk fyiri skilning og þolinmóða bíð eftir síðu.
gangi ykkur vel að ganga!
Nína

Fróðleikur um Fossheiði – gönguferð 20. júlí 2019

FERÐAFÉLAG ÍSFIRÐINGA GÖNGUFERÐ – FOSSHEIÐI 

Ferðafélag Ísfirðinga (FFÍ) er ein deild innan Ferðafélags Íslands en starfar sjálfstætt. Félagið er áhugamannafélag og er tilgangur þess að stuðla að ferðalögum um Ísland, einkum á Vestfjörðum.

Göngusumarið 2019 hefur gengið mjög vel hjá FFÍ en 21 ferð er á ferðaáætlun félagsins þetta árið. Ferðirnar í ár eru líkt og áður fjölbreyttar en flestar þeirra eru gönguferðir. Það er þó líkt og fyrri ár boðið upp á eina hjólaferð. Einnig er á áætluninni að finna a.m.k. fjórar ferðir sem flokkast undir vera svokallaðar fjölskylduferðir og um leið sögugöngur. Reynt var að gæta þess að sem flestir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi og hafa þær af mismunandi erfiðleikastigi (1 – 3 skór).

Laugardaginn 20. júlí stóð FFÍ – Ferðafélag Ísfirðinga fyrir gönguferð yfir Fossheiði en vegalengdin yfir hana er um 15 km. og hækkun er upp í 490 m. hæð. Fossheiðin er forn alfaraleið á milli Arnarfjarðar og Barðastrandar.

Leiðin liggur upp hjá Fossi í Fossfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar og niður um Leikvöll eða Mórudal á Barðaströnd. Í þessari göngu var gengið niður Leikvöll og að Tungumúla á Barðaströnd. Gatan er víðast mjög greinileg og greiðfær og vitnar um að þetta er gróin leið í þeim skilningi að hún er mörkuð í umhverfi sitt og máist ekki svo auðveldlega burt. Töluverð vinna var lögð í að viðhalda veginum yfir heiðina og skýrslur hreppstjóra og oddvita í Suðurfjarðahreppi og Barðastrandarhreppi á ofanverðri 19. öld segja til um að unnið hafi verið í Fossheiði á hverju ári, hún rudd, borið í veginn og vörður hlaðnar til að auðvelda rötun og einstaka sinnum byggð ný brú eða sú gamla löguð. Leiðsögumaður í ferðinni var heimamaðurinn Þórður Sveinsson  frá Múla á Barðaströnd.


Hópmynd – Hópmynd af góðu og samstilltu göngufólki - Ljósmyndari: Guðrún Ásgeirsdóttir

Göngufólkið lagði af stað héðan frá Ísafirði um sjöleytið og var komið á áfangastað að Foss í Fossfirði um tveimur og hálfum tímum síðar. Gengið var upp brekkuna beint upp af bænum, svokallaðan Kvennagang norðan bæjarins í átt að fossinum upp á fyrsta hjallann. Þegar á hjallann var komið var gengið upp kjarrivaxna brekku þar til komið var upp á Hamarshjallann.  Þá tók við ganga eftir gilbarmi Hamarshjallaárinnar sem að vísu er nokkuð tæpur á köflum. Hinn kosturinn var sá ganga neðar og  að freista þess að finna götuna á kafi í kjarrinu en það þótti okkur ekki fýsilegur kostur. Nokkuð ofan hjallans stikluðum við á steinum yfir Hamarshjallaána en áin er yfirleitt greiðfær og auðvelt að stikla hana en hún getur getur orðið ansi vatnsmikil. Upp frá ánni var góð og greinileg gata í sneiðingum upp á næsta hjalla. Af hjallanum voru vörður greinilegar og vel hlaðnar.


Góðar og vel hlaðnar vörður vísa veginn víða á Fossheiði – ljósmyndari Eggert Stefánsson

Við fikruðum okkur áfram upp í hæðirnar sem framundan voru. Leiðin var nokkuð auðrötuð vegna götunnar sem þar er en ekki síður varðanna sem vísa veginn oftast þegar gatan hverfur í mosa og lyng. Göngufólk ákvað að taka sér hvíldar- og nestisstopp í fallegri laut stuttu eftir að upp á Hamarshjallann var komið. Þórður leiðsögumaður tók þá upp úr bakpokanum sínum frásögn af nokkrum Barðstrendingum sem lent höfðu í miklum hrakningum eftir verslunarferð til Bíldudals árið 1920 en veturinn 1919 – 20 var með allra mestu snjóavetrum hér á Vestfjörðum. Þeir hrepptu ofsaveður á heiðinni, villtust af leið og urðu að liggja úti á henni þar til veðrið fór að ganga aðeins niður. Ferðin fór þó vel að lokum og þeir komust allir lifandi úr þessari svaðilför. Frá þessari ferð segir Barðstrendingurinn Ólafur Þórðarson skrifaði grein um þessa hrakningaför sem hann birti í bók sinni Leitað í Sandinn.

Einnig er frásögnina að finna í prentaðri frásögn eftir Snorra Gunnlaugsson frá Patreksfirði af hrakningum þessum en hann var sonur Gunnlaugs Kristóferssonar, eins þeirra félaga sem lágu þarna úti. Gunnlaugur átti síðar eftir að vinna að verkalýðsmálum og varð m.a. formaður Verkalýðsfélags Patreksfjarðar.   Frásögnina las Guðbjörg Skarphéðinsdóttir, einn af þátttakendum í ferðinni og er óhætt að segja það að allir hafa hlustað með mikilli athygli á frásögnina.


Hlustað af athygli á lestur frásögunnar af hrakningum Barðstrendinga - ljósmyndari Eggert Stefánsson

Eftir nestisstoppið tók við brött ganga upp Hróaldsbrekkuna, sem einkennist af hörðum klöppum og bergi, en við gátum nýtt okkur línuveg sem þar er snarbrattur og grófur, og gengið hann skamma stund. Einnig hefði örugglega  verið gaman að leita uppi gömlu leiðina sem hlykkjast upp brekkuna, en sums staðar er hún undir línuveginum. Af brekkubrúninni fylgdum við línuveginum smá spöl þar til við fundum gömlu götuna aftur, fagurlega lagaða götu með fallegum vörðum sem hlykkjast eftir hálendinu.


Það er ekki oft sem að fjögur systkini taka þátt í gönguferðum ferðafélaga en það gerðu fjögur af systkinunum frá Kvígindisdal – ljómyndari Eggert Stefánsson.

Við gengum síðan upp í svokölluð Mjósund en þau eru u.þ.b. vörðu norðan við Vegamót. Elvar Björg Einarsdóttir sem skrifaði hina greinargóðu göngubók um  Barðastrandarhrepp greinir frá því í bókinni að hún hafi ásamt samferðafólki sínu fundið leirkersbrot þar skammt frá þegar þau voru þar á ferð. Leirkersbrotin voru úr steinleir upprunninn frá Raeren i Belgíu og frá því um eða fyrir miðja 16.öld. Á Vegamótum getur göngufólk valið um að ganga niður Leikvöll að Tungumúla eða niður í Mórudal. Það er freistandi að ganga niður Mórudalinn og rifja upp frásagnir af Sjömannabana en skv. gömlum frásögnum áttu þar sjö menn að hafa orðið úti við flutning á báti yfir Fossheiðina en oft var farið með báta yfir heiðar á hjarni hér á Vestfjörðum og sennilega víðar. Pétur frá Stökkum greinir svo frá örlögum þeirra:   Hafi þeir vegna hríðarinnar orðið uppi á hjallanum í stað þess að fara neðan við hann. Þeir renna nú bátnum suður eftir hjallanum og hafa veðrið í bakið. Einn var við afturstafn og ýtti eftir. Vissi hann þá ekki fyrr en báturinn og allir sjö félagar hans steyptust fram af hamrinum niður í urðina og biðu þar bana en hann stóð einn eftir og var til frásagna.

Á Vegamótum er enn töluverður spotti á áfangastað, rúmur helmingur leiðarinnar þó svo að hann sé mun léttari og undan brekkunni að fara að mestu. Stuttu áður en komið er að Geitá er vegarslóðinn farinn hjá svokölluðum Aronslautum en þar á að vera hellir eða skúti sem útilegumaðurinn Aron Hjörleifsson hélt sig í. Það er Aronshellir í Arnarbýlu.

Seinna nestisstoppið var við Geitá. Hún getur orðið mikil í vatnavöxtum. Í þessari á varð hörmulegt slys sumarið 1966. Ungur maður frá Tálknafirði hafði ætlað að fara fjallveg heim eftir dansleik í Birkimel en hrasað og fallið í ána. Þar deyr hann.

Mikil leit var gerð að honum en hún bar ekki árangur fyrr en haustið eftir þegar gangnamenn finna hann. Þessi ungi maður hét Sigurður Theódórsson og foreldrar hans gáfu áletraðan minningarskjöld um son sinn fyrir mikla og fórnfúsa leit að honum. Skjöldurinn er í Birkimel. Blessuð veri minning þessa unga manns sem þarna mætti örlögum sínum, einn á heiðarvegi.

Við héldum síðan áfram niður Leikvöll og létum vörðurnar á Urðarhjalla vísa okkur veginn. Gatan er aflíðandi og fyrr en varir, og nokkru síðar erum við á Sjónarhóli en þar sést fyrst til fólks af Fossheiði frá Tungumúla. 


Hluti göngumanna horfir hér yfir Breiðafjörð – ljósmynd Eggert Stefánsson

Við gengum niður á Leikvöllinn eftir fallegum sneiðingum niður svokallaða Aurbrekku og götuslóða undir Stórubrekku að hömrunum sem vissulega eru enginn barnaleikvöllur, einir 10 metrar niður á tæpu klettabeltinu – heita Leikvöllur engu að síður. Á Leikvelli var mikilvægt að fara varlega, ekki síst vegna þess að gatan er víða gróin kjarri og tæpt þarf að fara. Haustið 1875 hrapaði Guðmundur Þorláksson fram af Leikvallarklettum og beið bana. Var hann fyrsti póstur á leiðinni frá Bæ í Króksfirði á Bíldudal og Patreksfjörð. Í Söguþáttum landpóstanna er sagt nokkuð frá Guðmundi Þorlákssyni pósti og hans feigðarför. Þegar kom niður af Leikvellinum lá leiðin eftir nokkuð greinilegri götu áfram niður að Tungumúla.

Það voru nokkuð þreyttir en ánægðir ferðalangar sem luku ferðinni niður við gatnamótin að þjóðveginum. Sumir fóru beint heim en nokkrir ákváðu að nýta sér sumartímaopnun sundlaugarinnar í Reykjarfirði áður en heim væri haldið. Í heild var þetta frábær ferð þar sem saman fór góður og samstilltur hópur ásamt þaulkunnugum leiðsögumanni. Ferðahópurinn vill í lokin koma á framfæri þakklæti til Þórðar Sveinssonar fyrir styrka, skemmtilega og síðast en ekki síst fræðandi leiðsögn.


Leiðsögumaðurinn Þórður Sveinsson frá Múla á Barðaströnd – ljósmyndari Eggert Stefánsson.

Heimildir:
Elva Björg Einarsdóttir. 2016. Barðastrandarhreppur – göngubók. Útgefandi er höfundur, Reykjavík.
Kristján Þórðarson. 2006. Vegir og vegleysur. Bókaútgáfan Kjóamýri, Breiðalæk.

Greinina skrifaði Emil Ingi Emilsson ritari Ferðafélags Ísfirðinga.