Eins og sannri bók sæmir, þá heitir hún eitthvað: Söngbók Ferðafélags Ísfirðinga, og hefur undirtitil: Lífsins gleðisöngvar með gamansemi og alvöru í bland. Svo er fuglasöngurinn skráður við hlið teikninga af fuglum: skrækhúhúhúhúbíbískrítiríbígarggarggargkrúnkrúnkkrúnkkráklúkkbílívitbílívitbílívitblíbbblíbbblíbbkríkríkríkrajibbíjibbídýrðindýrðin.
Baksíðutextinn er nokkurskonar ljóð eftir Nínu Ivanovu, hönnuð og uppsetjara bókarinnar:
Ferðafélag Ísfirðinga er félag sem á ekki hús en á sjálfa jörðina fyrir gólf, himininn fyrir þak og vestfirsku fjöllin fyrir veggi. Þetta rými á að fylla með söng.
Í frjálslegri meðferð laganna er gott að hafa texta. Þá þekkist hvaða lag er verið að syngja.
Sum lög eru farfuglar; skriðu úr eggjum sínum í öðrum löndum en settust að á Íslandi og í íslenskum hjörtum. Þessi bók sýnir lagatextana í upprunaútgáfu og á íslensku.
Eins og tilheyrir á gönguferðum, þá eru teknar nestispásur. Pásurnar í þessari bók eru fullar af fróðleik og skemmtiefni, aðallega um Vestfirði og ferðalög um þá. Fínt nesti það.