Gamansaga

Gamansaga úr ferðum hjá ferðafélaginu Ferlir en FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík

Félögum stóð til boða að kaupa derhúfur hjá félaginu á sínum tíma.Til gamans má geta þess að tvær húfur, sem týndust, . komu í leitirnar skömmu síðar. Aðra hafði eigandinn lagt frá sér í Brennisteinsfjöllum. Þremur dögum síðar var bankað upp á hjá honum og honum afhent húfan. Hina fann eigandinn á snaga í rakarastofu í borginni og uppgötvaði þá að húfunni hafði hann týnt á Bláfjallasvæðinu rúmri viku fyrr. Þriðja húfan týndist svo norðvestan við Einbúa, sunnan við Kastið, fyrir stuttu. Hennar er vænst í hús innan tíðar.
Lygilegasta sanna sagan er þó sú er segir af FERLIRsfélaganum, sem varð það á að stíga óvart með annan fótinn fram af snjóhengju á bjargbrún. Honum til happs náði hann að grípa í húfuderið og að hanga á því nógu lengi til að geta stigið skrefið til baka á fast. Síðan hefur hann jafnvel og sofið með húfuna – svona til öryggis…

Námskeið í rötun

Orðsending frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Vilt þú læra að rata?
Spennandi námskeið haldið í samstarfi við Ferðafélag Ísfirðinga. Ferðafélagið niðurgreiðir 50% af heildarverði til almennra félagsmanna sinna en allt gjaldið fyrir fararstjóra í ferðum félagsins á komandi sumri. Frekari upplýsingar og skráning á heimasíðu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða frmst.is

Litla ferðafélagið í Bolungarvík

Ferðafélag Ísfirðinga og tvö fyrri líf þess eru ekki einu ferðafélögin sem stofnuð hafa verið á norðanverðum Vestfjörðum. Á fyrri hluta 20. aldar varð til ferðafélag í Bolungarvík. Hér er örlítill fróðleiksmoli um það. Hann er fenginn úr minningargrein um Guðmund Pálsson, stofnanda félagsins. Jónatan Einarsson, vinur hans, ritaði:

“Á milli heimila okkar var mikill samgangur og vinátta. Við Guðmundur vorum leikfélagar og stofnuðum ásamt fleiri ungum strákum Litla ferðafélagið sem stóð fyrir útilegum, fjallaferðum, skíðaferðum o.fl. Með því fórum við í margar ógleymanlegar ferðir, klifum flest fjöll í kringum Bolungarvík, fórum í útilegur víðsvegar um Ísafjarðardjúp og í hrikalegri náttúru Vestfjarða dreymdi okkur marga framtíðardrauma. Upp úr ferðafélaginu var stofnað Skátafélagið Gagnherjar og var Guðmundur aðalhvatamaður þess og fyrsti formaður. Guðmundur var alla tíð mikið náttúrubarn og útivistarmaður og í skátafélaginu gat hann sameinað það áhugamál sitt og þá lífsstefnu sem hann alla tíð hafði í heiðri, að ganga aldrei á bak orða sinna. Guðmundur var einnig virkur félagi í Ungmennafélagi Bolungarvíkur og formaður íþróttaráðs um árabil.”