Burt hið illa víkja verður, vonska stenst ei nein, þrautseig hönd hins göfga góða græðir sár og mein. Guðadropinn holað hefur heimsins vítisstein.
(Úr kvæðinu Dropinn holar steininn sem Sigurður Z. Gíslason orti um látinn smælingja)
Þannig byrjar grein sem Hjörtur Þórarinsson skrifar til minningar um Sigurð Z. Gíslason sem var prestur í Sandaprestakalli í Dýrafirði. Þar þjónaði hann þar til hann féll frá 1. janúar 1943, er snjóskriða féll á hann á leið til útkirkju hans að Hrauni í Keldudal.
Gunnhildur leiðsögumaður sagði okkur frá honum og þessari síðustu ferð hans í gönguferðinni. Þar komu fram ýmsar upplýsingar um hann m.a. um framlag hans varðandi mæðradaginn en hann vakti fyrstur manna máls á því að helga mæðrum einn dag á ári. Hann felldi einnig niður íþyngjandi kvaðir á Hraunsbændum og hafði sterkar skoðanir á ýmsum mannúðarmálum.
Einnig voru nokkrar vangaveltur um það fyrir hvað skammstöfunin í millinafninu stæði fyrir. Í þessari sömu minningargrein standa einnig m.a. annars eftirfarandi orð: Sálgæsla hans var víðfeðm og næm. Það kom í hans hlut á stríðsárunum að færa mörgum ekkjum og föðurlausum börnum þá sorgarfregn að skip ástvina þeirra hefði farist eða verið skotið niður. Í þessar vitjanir tók hann stundum eldri dóttur sína og bað hana að vera hjá börnunum og tala við þau meðan hann ræddi sorgaratburðinn við móðurina og heimilisfólkið. Börn skilja oft betur tilfinningalíf hvers annars heldur en fullorðnir. Óafvitandi var hann þarna að undirbúa hana undir það óvænta áfall er hún og fjölskyldan máttu þola nokkru síðar. Útfararræður hans voru áhrifaríkar og eftirminnilegar. Við eina jarðarför lagði hann út af gríska málshættinum: “Dropinn holar steininn”. Það sem gerði þessa minningarathöfn hans sérstaka var tvennt, þarna var um að ræða einn af hinum minnstu bræðrum mannfélagsins, fátæka konu í lægstu þrepum mannfélagsins, sem hann var að kveðja. Minningarræðan var þrungin kærleika, næmleika og skilningi hins kristna manns. Í sannleika minnist hann orða Krists. “Að eins og þér eruð mínum minnstu bræðrum þannig eruð þér mér.”
Þess má að lokum geta að sr. Sigurður var faðir Jóns bassa hljómlistarmanns og Diddi fiðla er barnabarn hans.