Fróðleikur um Fossheiði – gönguferð 20. júlí 2019

FERÐAFÉLAG ÍSFIRÐINGA GÖNGUFERÐ – FOSSHEIÐI 

Ferðafélag Ísfirðinga (FFÍ) er ein deild innan Ferðafélags Íslands en starfar sjálfstætt. Félagið er áhugamannafélag og er tilgangur þess að stuðla að ferðalögum um Ísland, einkum á Vestfjörðum.

Göngusumarið 2019 hefur gengið mjög vel hjá FFÍ en 21 ferð er á ferðaáætlun félagsins þetta árið. Ferðirnar í ár eru líkt og áður fjölbreyttar en flestar þeirra eru gönguferðir. Það er þó líkt og fyrri ár boðið upp á eina hjólaferð. Einnig er á áætluninni að finna a.m.k. fjórar ferðir sem flokkast undir vera svokallaðar fjölskylduferðir og um leið sögugöngur. Reynt var að gæta þess að sem flestir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi og hafa þær af mismunandi erfiðleikastigi (1 – 3 skór).

Laugardaginn 20. júlí stóð FFÍ – Ferðafélag Ísfirðinga fyrir gönguferð yfir Fossheiði en vegalengdin yfir hana er um 15 km. og hækkun er upp í 490 m. hæð. Fossheiðin er forn alfaraleið á milli Arnarfjarðar og Barðastrandar.

Leiðin liggur upp hjá Fossi í Fossfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar og niður um Leikvöll eða Mórudal á Barðaströnd. Í þessari göngu var gengið niður Leikvöll og að Tungumúla á Barðaströnd. Gatan er víðast mjög greinileg og greiðfær og vitnar um að þetta er gróin leið í þeim skilningi að hún er mörkuð í umhverfi sitt og máist ekki svo auðveldlega burt. Töluverð vinna var lögð í að viðhalda veginum yfir heiðina og skýrslur hreppstjóra og oddvita í Suðurfjarðahreppi og Barðastrandarhreppi á ofanverðri 19. öld segja til um að unnið hafi verið í Fossheiði á hverju ári, hún rudd, borið í veginn og vörður hlaðnar til að auðvelda rötun og einstaka sinnum byggð ný brú eða sú gamla löguð. Leiðsögumaður í ferðinni var heimamaðurinn Þórður Sveinsson  frá Múla á Barðaströnd.


Hópmynd – Hópmynd af góðu og samstilltu göngufólki - Ljósmyndari: Guðrún Ásgeirsdóttir

Göngufólkið lagði af stað héðan frá Ísafirði um sjöleytið og var komið á áfangastað að Foss í Fossfirði um tveimur og hálfum tímum síðar. Gengið var upp brekkuna beint upp af bænum, svokallaðan Kvennagang norðan bæjarins í átt að fossinum upp á fyrsta hjallann. Þegar á hjallann var komið var gengið upp kjarrivaxna brekku þar til komið var upp á Hamarshjallann.  Þá tók við ganga eftir gilbarmi Hamarshjallaárinnar sem að vísu er nokkuð tæpur á köflum. Hinn kosturinn var sá ganga neðar og  að freista þess að finna götuna á kafi í kjarrinu en það þótti okkur ekki fýsilegur kostur. Nokkuð ofan hjallans stikluðum við á steinum yfir Hamarshjallaána en áin er yfirleitt greiðfær og auðvelt að stikla hana en hún getur getur orðið ansi vatnsmikil. Upp frá ánni var góð og greinileg gata í sneiðingum upp á næsta hjalla. Af hjallanum voru vörður greinilegar og vel hlaðnar.


Góðar og vel hlaðnar vörður vísa veginn víða á Fossheiði – ljósmyndari Eggert Stefánsson

Við fikruðum okkur áfram upp í hæðirnar sem framundan voru. Leiðin var nokkuð auðrötuð vegna götunnar sem þar er en ekki síður varðanna sem vísa veginn oftast þegar gatan hverfur í mosa og lyng. Göngufólk ákvað að taka sér hvíldar- og nestisstopp í fallegri laut stuttu eftir að upp á Hamarshjallann var komið. Þórður leiðsögumaður tók þá upp úr bakpokanum sínum frásögn af nokkrum Barðstrendingum sem lent höfðu í miklum hrakningum eftir verslunarferð til Bíldudals árið 1920 en veturinn 1919 – 20 var með allra mestu snjóavetrum hér á Vestfjörðum. Þeir hrepptu ofsaveður á heiðinni, villtust af leið og urðu að liggja úti á henni þar til veðrið fór að ganga aðeins niður. Ferðin fór þó vel að lokum og þeir komust allir lifandi úr þessari svaðilför. Frá þessari ferð segir Barðstrendingurinn Ólafur Þórðarson skrifaði grein um þessa hrakningaför sem hann birti í bók sinni Leitað í Sandinn.

Einnig er frásögnina að finna í prentaðri frásögn eftir Snorra Gunnlaugsson frá Patreksfirði af hrakningum þessum en hann var sonur Gunnlaugs Kristóferssonar, eins þeirra félaga sem lágu þarna úti. Gunnlaugur átti síðar eftir að vinna að verkalýðsmálum og varð m.a. formaður Verkalýðsfélags Patreksfjarðar.   Frásögnina las Guðbjörg Skarphéðinsdóttir, einn af þátttakendum í ferðinni og er óhætt að segja það að allir hafa hlustað með mikilli athygli á frásögnina.


Hlustað af athygli á lestur frásögunnar af hrakningum Barðstrendinga - ljósmyndari Eggert Stefánsson

Eftir nestisstoppið tók við brött ganga upp Hróaldsbrekkuna, sem einkennist af hörðum klöppum og bergi, en við gátum nýtt okkur línuveg sem þar er snarbrattur og grófur, og gengið hann skamma stund. Einnig hefði örugglega  verið gaman að leita uppi gömlu leiðina sem hlykkjast upp brekkuna, en sums staðar er hún undir línuveginum. Af brekkubrúninni fylgdum við línuveginum smá spöl þar til við fundum gömlu götuna aftur, fagurlega lagaða götu með fallegum vörðum sem hlykkjast eftir hálendinu.


Það er ekki oft sem að fjögur systkini taka þátt í gönguferðum ferðafélaga en það gerðu fjögur af systkinunum frá Kvígindisdal – ljómyndari Eggert Stefánsson.

Við gengum síðan upp í svokölluð Mjósund en þau eru u.þ.b. vörðu norðan við Vegamót. Elvar Björg Einarsdóttir sem skrifaði hina greinargóðu göngubók um  Barðastrandarhrepp greinir frá því í bókinni að hún hafi ásamt samferðafólki sínu fundið leirkersbrot þar skammt frá þegar þau voru þar á ferð. Leirkersbrotin voru úr steinleir upprunninn frá Raeren i Belgíu og frá því um eða fyrir miðja 16.öld. Á Vegamótum getur göngufólk valið um að ganga niður Leikvöll að Tungumúla eða niður í Mórudal. Það er freistandi að ganga niður Mórudalinn og rifja upp frásagnir af Sjömannabana en skv. gömlum frásögnum áttu þar sjö menn að hafa orðið úti við flutning á báti yfir Fossheiðina en oft var farið með báta yfir heiðar á hjarni hér á Vestfjörðum og sennilega víðar. Pétur frá Stökkum greinir svo frá örlögum þeirra:   Hafi þeir vegna hríðarinnar orðið uppi á hjallanum í stað þess að fara neðan við hann. Þeir renna nú bátnum suður eftir hjallanum og hafa veðrið í bakið. Einn var við afturstafn og ýtti eftir. Vissi hann þá ekki fyrr en báturinn og allir sjö félagar hans steyptust fram af hamrinum niður í urðina og biðu þar bana en hann stóð einn eftir og var til frásagna.

Á Vegamótum er enn töluverður spotti á áfangastað, rúmur helmingur leiðarinnar þó svo að hann sé mun léttari og undan brekkunni að fara að mestu. Stuttu áður en komið er að Geitá er vegarslóðinn farinn hjá svokölluðum Aronslautum en þar á að vera hellir eða skúti sem útilegumaðurinn Aron Hjörleifsson hélt sig í. Það er Aronshellir í Arnarbýlu.

Seinna nestisstoppið var við Geitá. Hún getur orðið mikil í vatnavöxtum. Í þessari á varð hörmulegt slys sumarið 1966. Ungur maður frá Tálknafirði hafði ætlað að fara fjallveg heim eftir dansleik í Birkimel en hrasað og fallið í ána. Þar deyr hann.

Mikil leit var gerð að honum en hún bar ekki árangur fyrr en haustið eftir þegar gangnamenn finna hann. Þessi ungi maður hét Sigurður Theódórsson og foreldrar hans gáfu áletraðan minningarskjöld um son sinn fyrir mikla og fórnfúsa leit að honum. Skjöldurinn er í Birkimel. Blessuð veri minning þessa unga manns sem þarna mætti örlögum sínum, einn á heiðarvegi.

Við héldum síðan áfram niður Leikvöll og létum vörðurnar á Urðarhjalla vísa okkur veginn. Gatan er aflíðandi og fyrr en varir, og nokkru síðar erum við á Sjónarhóli en þar sést fyrst til fólks af Fossheiði frá Tungumúla. 


Hluti göngumanna horfir hér yfir Breiðafjörð – ljósmynd Eggert Stefánsson

Við gengum niður á Leikvöllinn eftir fallegum sneiðingum niður svokallaða Aurbrekku og götuslóða undir Stórubrekku að hömrunum sem vissulega eru enginn barnaleikvöllur, einir 10 metrar niður á tæpu klettabeltinu – heita Leikvöllur engu að síður. Á Leikvelli var mikilvægt að fara varlega, ekki síst vegna þess að gatan er víða gróin kjarri og tæpt þarf að fara. Haustið 1875 hrapaði Guðmundur Þorláksson fram af Leikvallarklettum og beið bana. Var hann fyrsti póstur á leiðinni frá Bæ í Króksfirði á Bíldudal og Patreksfjörð. Í Söguþáttum landpóstanna er sagt nokkuð frá Guðmundi Þorlákssyni pósti og hans feigðarför. Þegar kom niður af Leikvellinum lá leiðin eftir nokkuð greinilegri götu áfram niður að Tungumúla.

Það voru nokkuð þreyttir en ánægðir ferðalangar sem luku ferðinni niður við gatnamótin að þjóðveginum. Sumir fóru beint heim en nokkrir ákváðu að nýta sér sumartímaopnun sundlaugarinnar í Reykjarfirði áður en heim væri haldið. Í heild var þetta frábær ferð þar sem saman fór góður og samstilltur hópur ásamt þaulkunnugum leiðsögumanni. Ferðahópurinn vill í lokin koma á framfæri þakklæti til Þórðar Sveinssonar fyrir styrka, skemmtilega og síðast en ekki síst fræðandi leiðsögn.


Leiðsögumaðurinn Þórður Sveinsson frá Múla á Barðaströnd – ljósmyndari Eggert Stefánsson.

Heimildir:
Elva Björg Einarsdóttir. 2016. Barðastrandarhreppur – göngubók. Útgefandi er höfundur, Reykjavík.
Kristján Þórðarson. 2006. Vegir og vegleysur. Bókaútgáfan Kjóamýri, Breiðalæk.

Greinina skrifaði Emil Ingi Emilsson ritari Ferðafélags Ísfirðinga.

Posted in Fróðleikur.