ferðaáætlun 2025

Ferðafélag Ísfirðinga – ferðaáætlun 2025

ALLIR eru velkomnir – félagsmenn jafnt sem aðrir

17. maí – Eyrarhlíð 
24. maí – Söguferð um Holtahverfi  
31. maí – Dalir Bolungarvíkur 
14. júní – Sögualdarferð um Súgandafjörð 
21. júní – Arnarnúpur 
24. júní – Mannlíf og saga í Haukadal 
28. júní – Hestafjarðarbotn 
2. júlí – Skógargöngur í Dýrafirði – fyrri hluti 
5. júlí – Á Straumnesfjall og um Rekavík bak Látur 
12. júlí – Tjaldanesdalur – Kirkjubólsdalur 
19. júlí – Rauðisandur – Keflavík 
20. júlí – Sjöundá 
27. júlí – Snæfjallaströnd 
9. ágúst – Sporhamarsfjall 
16. ágúst – Eyðibyggðir Arnarfjarðar – Tjaldanes að Álftamýri 
23. ágúst – Lambadalsfjall 
30. ágúst – Gíslaganga og Sambatal í Selárdal 
6. september – Á heimaslóðum 
13. september – Hrafnseyri-Haugsdalur 
20. september – Engidalur – Háafell 
27. september – Óvissuferð  

 

Eyrarhlíð — 1 skór —
Ísfirskir göngustígar og kynning á ferðaáætlun
Laugardaginn 17. maí

Umsjón: stjórn Ferðafélags Ísfirðinga.

Mæting kl. 12.30 við Netagerðina á Grænagarði.
Gengið upp frá Grænagarði inn á göngustíga milli fjalls og byggðar. Endað í Safnahúsinu á Eyrartúni þar sem ferðaáætlun gönguársins 2025 verður kynnt í máli og myndum.
Boðið verður upp á veitingar með kynningunni.
Göngutími: tæp klukkustund. Kynning: tæpar tvær klukkustundir.

 

Söguferð um Holtahverfi og nágrenni  — 1 skór —
Bæjarganga um úthverfi Ísafjarðar
Laugardaginn 24. maí

Fararstjórn: Ragnar Kristinsson (Raggi í Laufási).
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið um Tunguhverfi, Holtahverfi og áleiðis inn Engidal. Sagt frá svæðinu eins og það var áður en þar reis þéttbýli og hvernig það tók að myndast.
Raggi er einn af frumbyggjum svæðisins og kann gnótt af sögum af fólkinu og landinu.
Göngutími: 2-3 klst.

 

 

Dalir Bolungarvíkur  — 1 skór —
Laugardaginn 31. maí

Fararstjórn: Elín Þóra Stefánsdóttir.
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.
Hringleið fyrir innan Bolungarvík. Gengið  upp á varnargarð, fram Tungudal, farið yfir ána fyrir ofan Þjóðólfstungu, vaðið yfir Hólsá, farið niður Hólsdalinn og að kirkjunni og loks í gegnum skógræktina áður en hringnum er lokað.

Vegalengd: 4-5 km, göngutími: um 2 klst., lítil hækkun.

Tilbrigði: Grjótskál í Tungudal innlimuð í hringinn. Þá lengist leiðin um helming og hækkun er umtalsverð (rúmir 300 m). Þátttakendur og veðrið leiða í ljós hvor útgáfan verður valin. — 2 skór

3

 

Sögualdarferð um Súgandafjörð  — 1 skór —
Laugardaginn 14. júní

Fararstjórn: Stjórn Ferðaféalgs Ísfirðinga.
Sögumenn og fræðarar: Eyþór Eðvarðsson og  Pétur Óli Þorvaldsson.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði.

Sögualdarferð í Súgandafirði. Þátttakendur keyra að Botni í Súgandafirði þar sem landnámsaldar -tilgátuskálinn er skoðaður undir leiðsögn Eyþórs Eðvarðssonar. Að því loknu er keyrt út í Staðardal og þá að verbúðinni sem þar hefur verið byggð upp. Verbúðin skoðuð undir leiðsögn Eyþórs. Þátttakendur ganga síðan inn að Stað að landnámsaldar – tilgátuskála sem þar hefur verið reistur. Leiðsögn í höndum þeirra sem þar hafa verið að verki. Möguleiki á að ganga áleiðis upp í Sunndal í lok ferðarinnar.

Vegalengd: Um 1 km í Botni og annað eins í Staðardal, að því gefnu að leiðin sé ekki lengd. Það má samt búast við að þetta taki allt langan tíma (2-4 klst.) því frá mörgu er að segja.

4

 

 


Arnarnúpur  — 2 skór —
Laugardaginn 21. júní

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið frá Sveinseyrarvatni sem leið liggur upp Sveinseyrarhvilftina, upp á Arnarnúpinn, hæð 558 m. Gengið meðfram fjallsbrúnum og notið stórfenglegs útsýnis, m.a. yfir hinn undurfagra Keldudal.
Í þessari ferð verður farið með nýjan gestabókarkassa upp á núpinn og honum komið þar fyrir.

Vegalengd: u.þ.b. 8 km, göngutími: 5 klst., hækkun: 550 m.

 

 

Mannlíf og saga í Haukadal – Gönguferð og sögustund  — 1 skór —
Þriðjudaginn 24. júní

Gönguformaður og sögumaður: Elfar Logi Hannesson.
Mæting kl. 19.00 við Bónus á Ísafirði, 19.45 við íþróttamiðstöðina á Þingeyri og 20:00 við Kómedíuleikhúsið í Haukadal.

Gengið verður á milli bæja í Haukadal og sögur sagðar af ábúendum og gestum frá landnámi fram á þennan dag.
Að göngu lokinni verður boðið inní Kómedíuleikhús í Haukadal hvar hægt verður að fá sér hressingu á einstaklega kómísku verði.

Vegalengd: ekkert til að hafa áhyggjur af, áætlaður göngutími: á áætlun,  hækkun: tekur ekki að nefna hana.
Hóflegt verð verður auglýst síðar. Félagsmenn FFÍ fá 20% afslátt.

 

 


Hestfjarðarbotn  — 2 skór —
Laugardaginn 28. júní

Fararstjórn: Barði Ingibjartsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði. Farið á einkabílum að brúnni innst í Hestfirði.

Gengið verður að fallegum en sjaldséðum náttúrufyrirbærum sem eru nánast í alfaraleið: Búasteinn í Búasteinshlíð og Lambagilsfoss.
Leiðin er stutt en ekki mjög greiðfær. Barði er þó búinn að klippa hrís til að auðvelda aðgengið. Fara þarf yfir eitt gil en það er ekki mikil fyrirstaða.
Vegalengd: um 4 km fram og til baka,  göngutími: 2-4 klst.

 

Skógargöngur í Dýrafirði – fyrri hluti  — 1 skór —
Miðvikudaginn 2. júlí

Fararstjórn: Stjórn Ferðafélags Ísfirðinga.
Sögumaður og fræðari: Sæmundur Kr. Þorvaldsson skógfræðingur.
Mæting kl. 17.30 við Bónus á Ísafirði. Í skoðun er að leigja rútu fyrir þessa ferð.
Skoðuð verður skógrækt í Dýrafirði norðanverðum. Farið á einkabílum eða með rútu milli staða. Ekki verður gengið mikið á hverjum stað en þeim mun meira hlustað og talað. Sögð verður saga trjáreitanna, helstu trjátegundir nefndar og fjallað um vöxt og viðgang trjánna.
Áætlaður tími: 3-5 klst.
Árið 2026 er fyrirhugað að fara í samskonar ferð, nema að þá verður skógræktin í sunnanverðum Dýrafirði skoðuð.

 

 


Á Straumnesfjall og um Rekavík bak Látur  — 2 skór —
Laugardaginn 5. júlí

Fararstjórn: Snorri Grímsson og Yngvi Snorrason.
Mæting kl. 7.00 við Sundahöfn á Ísafirði.
Siglt að Látrum. Sagt frá þorpinu sem þar stóð. Þar var skóli, útgerð, löggiltur verslunarstaður og fjölmennasta þéttbýli norðan Djúps; um 140 manns þegar mest lét á árunum 1920-1940. Eftir að byggð lagðist af var aftur ráðist þar í framkvæmdir. Það var í kringum byggingu ratstjárstöðvar bandaríska hersins uppi á Straumnesfjalli. Þangað var lagður vegur og eftir honum verður gengið. Víðsýnt er af þeirri leið. Rústir ratsjárstöðvarinnar verða skoðaðar og frá þeim sagt. Leiðin til baka liggur niður Öldudal. Það er erfiðasti hluti ferðarinnar; vegleysur og bratti en þó lítið um klungur og ekkert klifur. Stoppað í Rekavík og því næst gengið meðfram Rekavíkurvatni þar sem göngufærið er ýmist gott eða torfærara. Við enda vatnsins er fljótlega komið inn á vegslóða. Hann kemur upp á veginn sem liggur að Látrum. Þar endar ferðin.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com, þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 30 manns komist með í ferðina.
Verð fyrir félagsmenn FFÍ: 16.000 kr., verð fyrir aðra: 20.000 kr.
Vegalengd: um 20 km, göngutími: 6-8 klst., ferðatími í heild um 12 tímar, upphækkun: um 420 m.

 

 


Tjaldanesdalur – Kirkjubólsdalur  — 2 skór —
Laugardaginn 12. júlí

Fararstjórn: Þórir Örn Guðmundsson.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði.

Komið saman á Þingeyri. Ekið á nokkrum bílum að Tjaldanesdal þar sem gangan hefst.

Gengið er fram allan dalinn og upp í skarðið milli Tjaldanesdals og  Göngudals í Kirkjubólsdal. Þaðan niður Göngudal og eftir Tröllagötum í Kirkjubólsdal að Hofi og áfram að bílunum sem voru skildir eftir.

Vegalengd: um 11 km, göngutími: um það bil 5-6 klst., hækkun: um 500 m.

 

 


Rauðisandur – Keflavík  — 2 skór —
Laugardaginn 19. júlí

Fararstjórn: Guðrún Anna Finnbogadóttir og Ómar Smári Kristinsson.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði.

Komið saman við bílastæðið hjá Lambavatni á Rauðasandi og miðað við að gangan hefjist fyrir kl. 11:00. Gengið með fjörunni að Naustabrekkum og farið upp sneiðinginn þar. Gengið yfir Kerlingarháls, vonandi í góðu skyggni, því þaðan er fagurt útsýni. Komið niður í Keflavík þar sem skoðaðar verða rústir verbúða og sagt frá búsetu.  Gengið eftir vegslóðanum upp úr víkinni. Ofan við brekkubrún bíður rúta sem ekur fólki að bílunum við Lambavatn.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 20 manns komist með í ferðina.

Verð fyrir rútufar: 4.000 kr. fyrir meðlimi Ferðafélags Ísfirðinga. 5.000 kr. fyrir aðra.

Vegalengd: um 12 km, göngutími: 5-7 klst., hækkun: tæpir 300 m tvisvar sinnum.

ATH. Daginn eftir, sunnudaginn 20. júlí, verður gönguferð á Rauðasandi. Fólk þarf sjálft að verða sér úti um gistingu, ætli það einnig í þá ferð.

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjöundá  — 1 skór —
Sunnudaginn. 20. júlí

Fararstjórn: Steinunn Alda Guðmundsdóttir.
Mæting kl. 8.00 við Bónus á Ísafirði og kl. 10.30 á Melanesi á Rauðasandi. Þar hefst gangan.

Stutt og auðveld ganga en rík af umfjöllunarefni, m.a. af Sjöundármálunum, þeirri miklu harmsögu.

Vegalengd alls: um 4 km, göngutími: 2-3 klst., lítil upphækkun.
Fótabað í sjónum á eftir og/eða veitingar á Franska kaffihúsinu.

 

 

 

 

 

 

 


Snæfjallaströnd  — 2 skór —
Sunnudaginn. 27. júlí

Fararstjórn: Emil Ingi Emilsson.
Sögumenn og fræðarar: Elfar Logi Hannesson og hugsanlega fleiri.
Mæting kl. 8.00 við Sundahöfn á Ísafirði.
Siglt að Sandeyri – innlegg frá Elfari Loga um Baskavígin þar – gengið að hinni gömlu byggð við utanverða Snæfjallaströnd. Því næst er gengið inn Snæfjallaströnd alla leið að Hlíðarhúsum við Innra-Skarð. Þar er innlegg um Margréti Þórðardóttur sem sagan segir að eigi að hafa verið drekkt í Möngufossi sem rennur úr skarðinu. Gengið að fossinum. Ferðinni lýkur með bátsferð aftur til Ísafjarðar frá Hlíðarhúsum.
Þátttakendur verða að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com, þar sem að þátttakendafjöldi miðast við að 30 manns komist með í ferðina.

Verð: 12.000 kr. fyrir félaga FFÍ. 15.000 kr. fyrir aðra.
Vegalengd alls: um 10.5 km, göngu- og sögutími: 8-9 klst., ferðatími alls um 12 klst., lítil upphækkun.

 


Sporhamarsfjall  — 2 skór —
Laugardaginn 9. ágúst

Fararstjórn: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Steinþór Bjarni Kristjánsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði og 9.30 við Kirkjuból í Valþjófsdal.

Gengið upp á Sporhamarsfjall og meðfram brún þess. Þaðan blasir Önundarfjörður við. Leiðin er brött á kafla en þó er ekkert klifur.

Vegalengd: um 10 km, göngutími: 6-7 klst., hækkun: 650 m.

 

 


Eyðibyggðir Arnarfjarðar – Tjaldanes að Álftamýri  — 1 skór —
Sunnudaginn 17. ágúst

Fararstjórn: Jörundur Garðarsson .
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði og 10.30 við afleggjarann að Auðkúlu.
Sameinast í bíla til að fara yfir Kúluá og Tjaldanesá. Gangan hefst skammt frá vaðinu og endar á Álftamýri. 
Fyrirhugað er að vera með framhaldsgöngur næstu ár. Markmið ferðanna er að fá innsýn í sögu mannlífsins á svæðinu um leið og stórbrotins umhverfisins er notið. Krækiberin verða orðin þroskuð.
Vegalengd: 10 km, göngutími: 3-4 klst., hækkun ekki mikil, öll gangan á vegslóða og lítil hætta á að það þurfi að vaða. Fólk verður sótt á jeppum að Álftamýri, þar sem göngunni lýkur.
Skráning í ferðina á ferdafelag.isfirdinga@gmail.com fyrir föstudaginn 15. ágúst kl. 16:00..
Þátttökugjald 2000 kr.

 

 

 

 

 

 

 

 


Lambadalsfjall  — 3 skór —
Laugardaginn 23. ágúst

Fararstjórn: Sighvatur Jón Þórarinsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði.

Gengið upp Hvallátursdal og á hápunkt Lambadalsfjalls. Drjúg ganga og nokkuð erfið. Fer eftir snjóalögum hvernig gengur. Þarna er frekar þokusækið, sérstaklega í norðaustanáttum. Fólk þarf að klæða sig eftir veðri. Stundum getur gustað um þá sem eru á toppnum. Mjög víðsýnt er af fjallinu í góðu veðri.

Heildarvegalengd: allt að 15-16 km, eftir því hvaða leið er valin en það fer eftir snjóalögum og veðri.
Göngutími: minnst 8 klst., upphækkun: 970 m.

Ef ekki viðrar til ferðarinnar, verður valin önnur leið.

 

 

Gíslaganga og Sambatal í Selárdal  — 1 skór —
Gönguferð og sögustund
Laugardaginn 30. ágúst

Gönguformaður og sögumaður: Elfar Logi Hannesson.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði og við Selárdalskirkju kl. 13:00.

Gengið verður frá Selárdalskirkju að síðasta bænum í dalnum, nefnilega hinum þekkta bæ

Uppsölum hvar bjó hinn einstaki Gísli Oktavíus Gíslason. Sagðar verða Gíslasögur á sögustað og það verður sko enginn lurkur. Að göngu lokinni verður skundað í Dimmalimm, íbúðarhús Samúels í Selárdal er kallaður var Sambi. Þar verður hægt að gæða sér á hinni þekktu hjónabandssælu listakonunnar Billu.

Vegalengd: 3 km alls, áætlaður göngutími: á áætlun.
Félagsmenn 2.000 kr. Aðrir: 2.500 kr.
Kaffiveitingar einnig á sanngjörnu verði.

 

 

 

 

 

 

 

 


Á heimaslóðum  — 2 skór —
Sunnudaginn. 7. september

Fararstjórn: Hermann Gunnarsson og Þorgerður Kristjánsdóttir.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði.

Gengið frá Miðhúsum að Svansvík, þar sem ferðin endar. Þetta eru heimaslóðir fararstjóranna.
Mögulega verður hægt er að fara í sund í Reykjanesi að ferð lokinni.

Vegalengd: um 10 km, göngutími: 5-6 klst., hækkun: um 200 m. 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hrafnseyri – Auðkúla — 2 skór —
Laugardaginn 13. september
kl. 8.00 á einkabílum frá Bónus á Ísafirði.
Ferð í samstarfi við menningarsetrið á Hrafnseyri.

Fararstjórn: Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur. 
Á Hrafnseyri er sagt frá uppvaxtarárum Jóns Sigurðssonar og öðru sem tengist lífinu á staðnum á fyrri tíð. Gengið
verður að Bælisbrekku, ofan Hrafnseyrar, og sagt frá býlunum sem þar voru. Einnig verður veitt leiðsögn um uppgraftarstaðinn á Auðkúlu. Hressing á kaffihúsinu að göngu lokinni.
Mjög stuttar vegalengdir. Ræðutíminn getur hins vegar orðið langur.

 

 

 

 

 

 

 

 


Engidalur – Háafell  — 2 skór —
Laugardaginn. 20. september

Fararstjórn: Þröstur Jóhannesson.
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið upp frá bílastæði við Fossa, skáhallt upp á Kubba. Fjallsbrúninni fylgt; Háafell og Engidalsfjöll. Vegslóða fylgt að Nónvatni, Selá fylgt niður að Langá í Engidal og hringnum lokað.
Vegalengd: um 14 km, göngutími:  5-7 klst., upphækkun: rúmir 500 m.

 

 


Óvissuferð  — 1-2 skór —
Laugardaginn. 27. september

Fararstjórn: Kemur í ljós.
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.

Um þessa ferð ríkir alger óvissa. Þó er nokkuð ljóst að hún verður fyrir öll skilningarvit – líka bragðskynið.

 

 

 

Ferðaskilmálar og reglur

Staðgreiða þarf í allar ferðir, verkefni og námskeið við bókun, nema annað sé tekið fram.

Verð í ferðir og námskeið félagsins er sett fram með tvennum hætti: Annars vegar fyrir félagsmenn FFÍ og hins vegar fyrir þá sem ekki eru skráðir félagsmenn. FFÍ áskilur sér rétt til að innheimta árgjald félagsins eða mismun almenns verðs og félagsverðs hafi félagsverð verið greitt án virkrar félagsaðildar.

1. Afbókunarskilmálar fyrir dagsferðir

Afbókun 7 dögum eða meira fyrir brottför: 85% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 6-3 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 2 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

2. Afbókunarskilmálar fyrir lengri ferðir (2 dagar og lengri)

Afbókun 30 dögum eða meira fyrir brottför: 85% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 29-14 dögum fyrir brottför: 50% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 13-7 dögum fyrir brottför: 25% fargjalds endurgreitt.
Afbókun 6-0 dögum fyrir brottför: Engin endurgreiðsla.

3. Afslættir

Börn og unglingar, 7-18, í fylgd forráðamanna, greiða hálft gjald í ferðir félagsins. Börn, 6 ára og yngri, ferðast ókeypis með forráðamönnum sínum.

Félagsmenn í Ferðafélagi Ísfirðinga fá afslátt í allar ferðir félagsins. Afsláttur félagsmanna gildir einnig fyrir maka og börn að 18 ára aldri í fylgd félagsmanns.

4. Breytingar

Ferðafélag Ísfirðinga áskilur sér rétt til að hætta við, fresta ferð/námskeiði eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka.

Ef félagið aflýsir ferð/námskeiði, er fargjald endurgreitt að fullu.

Ferðafélag Ísfirðinga áskilur sér rétt til að breyta, fresta eða endurskipuleggja dagskrá félagsins vegna sóttarvarfyrirmæla í tengslum við Covid 19 eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna

5. Tryggingar

Ferðafélag Ísfirðinga tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Félagið hvetur fólk til að kaupa ferða- og slysatryggingar fyrir ferðir.

6. Fyrirvarar

Þátttakendum í ferðum FFÍ er ljóst að för í óbyggðum getur verið áhættusöm. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð og skuldbinda sig með skráningu í ferð til að gera ekki kröfur á FÍ vegna mögulegs tjóns sem þeir verða fyrir í ferðinni.

Farþegar verða að velja ferðir sem hæfa þeirra líkamlega formi. Vinsamlega kynnið ykkur upplýsingar um útbúnað og veður áður en lagt er af stað.

7. Birting myndefnis

Þátttakendur í ferðum og námskeiðum FFÍ samþykkja með þátttöku sinni að félaginu sé að heimilt að taka myndir eða myndbönd af þátttakendum og nota í birtingu á heimasíðu, samfélagsmiðlum og prentmiðlum. Þátttakandi getur ávallt hafnað birtingu myndefnis af sér með því að senda póst á ferdafelag.isfirdinga@gmail.com.

Aðalfundur Ferðafélags Ísfirðinga haldinn þriðjudaginn 19. mars 2024

Aðalfundur Ferðafélags Ísfirðinga haldinn þriðjudaginn 19. mars 2024 kl. 20:00 í Bryggjusal Edinborgarhússins á Ísafirði.

Mættir: Emil Ingi Emilsson, Eggert Stefánsson, Ómar Smári Kristinsson, Magnús Ingi Jónsson, Sturla Páll Sturluson og Örn Smári Gíslason.

Eggert var tilnefndur fundarstjóri og Ómar Smári fundarritari. Þeir skoruðust ekki undan og tilnefning þeirra var samþykkt einróma. Sturla Páll tók ljósmyndir af fundinum.

Dagskrá aðalfundarins:

Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs

Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar

Lagabreytingar

Kosning formanns

Kosning tveggja stjórnarmanna

Kosning tveggja varamanna

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

Ákvörðun félagsgjalds

Önnur mál

 

Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs:

Emil hóf erindi sitt eð því að minnast nýlátins félaga, Ásdísar Margrétar frá Miðhúsum. Að því loknu fór hann yfir starf félagsins á liðnu starfsári. Þar fór mest fyrir lýsingu á ferðunum og fararstjórunum. Hann talaði um samstarf við önnur félög en það voru einmitt farnar ferðir í samstarfi við Snjáfjallasetur og Kómedíuleikhúsið. Þá sagði hann frá tveimur stjórnarfundum sem haldnir voru á starfsárinu. Á þeim var farið yfir ýmis mál svo sem hvernig peningum félagsins skuli ráðstafað, hvernig fá megi fleira fólk í félagið, um ritun sögu félagsins og fleira. Hann kom aðeins inn á gestabókamálin en þau voru tekin betur fyrir undir liðnum önnur mál. Hann sagði frá starfi gönguferðarnefndarinnar. Loks flutti hann eitt ljóð.

 

Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar

Magnús Ingi Jónsson, gjaldkeri félagsins, varpaði ársreikningi 2023 upp á tjald.  Þar stóð allt eins og stafur á bók. Hagnaður ársins voru rétt rúmar 100.000 krónur. Eigið fé félagsins samkvæmt reikningnum er 1.232.179 kr. en er í rauninni hærra, því félagsgjöld ársins 2024 eru byrjuð að streyma inn. Smávegis var rætt um bókina og félagsgjöldin og hvaða félagsmenn borga/borga ekki og hversu lengi síðarnefndir eru í félaginu.  Reikningarnir voru samþykktir með lófataki og Magnúsi Inga hrósað fyrir vel unnin störf. Í fundarlok undirrituðu stjórnarmenn þá.

 

Lagabreytingar

Engar lagabreytingar og ekkert sem þarf að taka til athugunar.

 

Kosning formanns

Tveggja ára tímabili Emils sem formanns er lokið. Hann auglýsti eftir framboði til formanns á fésbókarsíðu félagsins og á aðalfundinum. Enginn bauð sig fram. Hann kvaðst ekki vilja skilja félagið eftir formannslaust og bauðst til að sitja áfram næstu tvö ár. Hann uppskar lófatak. Hann sagðist hafa tekið saman tölur um vinnuframlag formanns og nefndi 20 klst. á ári. Fundargestir töldu það vanáætlað, hafandi orðið vitni að mikilli sjálfboðavinnu. Emil viðraði hugmynd um að félagið réði framkvæmdastjóra sem gæti sinnt ýmsum viðburðum og fleiri verkefnum sem annars lenda á formanni.

 

Kosning tveggja stjórnarmanna

Báðir stjórnarmeðlimirnir sem setið hafa í tvö ár vilja hætta. Það eru þeir Sturla Páll Sturluson og Magnús Ingi Jónsson, gjaldkeri. Síðarnefndur sagðist munu starfa áfram uns nýr gjaldkeri finnst og að taka sér góðan tíma til að koma honum vel inn í hlutverkið. Nýr gjaldkeri fannst nefnilega ekki á aðalfundinum og ekki heldur neinn til að taka við hlutverki Sturlu Páls. Var þó tekið fram að ekki þyrfti að veljast gjaldkeri þar á staðnum, því stjórninni er heimilt að skipta með sér verkum.

 

Kosning tveggja varamanna

Eggert Stefánsson situr áfram sem varamaður. Hann afþakkaði boð um að vera „hækkaður í tign“ og setjast í stjórnina. Ómar Smári Kristinsson, formaður göngunefndar, bætti á sig titlum og gerðist varamaður. Hann tekur sæti Hildar Valsdóttur sem lætur af sínu embætti.

 

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

Martha Kristín Pálmadóttir heldur áfram sem skoðunarmaður en Margrét Högnadóttir hættir. Fráfarandi gjaldkeri félagsins, Magnús Ingi Jónsson, tekur hennar sæti.

 

Ákvörðun félagsgjalds

Magnús Ingi, gjaldkeri, er byrjaður að rukka fyrir félagsaðild og árbók, 8.900 kr. Hann tók fram að með því hafi hann tekið fram fyrir hendur aðalfundarins og bauð ekki upp á mótmæli. Engan fýsti að hafa þau í frammi.

 

Önnur mál

Emil hóf þennan lið með því að ítreka að halda þyrfti annan aðalfund í vor. Málið bar af og til á góma (hvenær skyldi hann haldinn og hvað skyldi hann heita). Í fundarlok, þegar fundargestir voru búnir að skoða stundarskrár sínar, var ákveðið að halda fundinn þriðjudaginn 23. apríl. Titill komst á hreint eftir að Eggert fundarstjóri sleit fundi. Hann gæti þá ekki heitað framhaldsfundur heldur aukafundur.

Emil talaði, sem oft áður, um nauðsyn þess að kynna félagið og starfsemi þess fyrir fleirum en íslenskumælandi fólki. Hann vill að efni heimasíðunnar sé til á fleiri málum, að minnsta kosti ensku og einhverju Austur-Evrópumáli. Nefndi hann Nínu Ivanovu, hönnuð síðunnar, í því samhengi. Sjálfur hafði hann athugað þjónustu þýðingafyrirtækja en hrökklaðist frá vegna hás verðlags.

Í beinu framhaldi af því velti Emil upp hugmyndum um ferðir sem sérsniðnar væru að útlendingum og þá þróaðist umræðan út í upprifjanir  á öðrum sérferðum og ferðum í samstarfi við önnur félög og að gjarnan mætti hafa meira af slíkum ferðum alls konar.

Fundargestir veltu einnig námskeiðum fyrir sér, ýmist fyrir fararstjóra eða félagsmenn almennt. Rifjað var upp hvers kyns námskeið hafi verið haldin og vöngum velt yfir hverju mætti bæta við.

Rætt var um gestabókakassana væntanlegu á Arnarnúpi, Sandafelli og Kistufelli sem ferðafélagið ætlar að koma upp og hafa veg og vanda að. Eggert rakti sögu Sandafellskassans. Hann verður samstarfsverkefni ferðafélagsins og íbúasamtakanna á Þingeyri.

Sturla spurði um hvernig staðan væri á samstarfi félagsins við gönguhátíðina í Súðavík. Það liggur niðri eins og er en má gjarnan hefjast á ný. Vonast er til að Súðvíkingar eigi frumkvæði að því. Ferðafélagið hefur, eftir sem áður, verið í samstarfi við Barða Ingibjartsson sem var leisögumaður í fyrra og verður það einnig sumarið 2024.

Loks reifaði Emil stöðuna á ritun sögu félagsins. Jón Hallfreð Engilbertsson, heitinn, var kominn af stað með söfnun gagna um þau félög sem Ferðafélag Ísfirðinga spratt upp úr. Ekkja Jóns Hallfreðs benti Emil á mág sinn, Ólaf. Hann er fræðimaður sem gæti hugsanlega haldið áfram með verk bróður síns. Hann vill þó engu lofa. Hugmyndin er að sagan komi út sem bæklingur, fremur en bók.

Áður en Eggert sleit fundi sagði hann spaugilega sögu af villum í gönguferð á vegum félagsins. Emil bætti við annarri hrakfarasögu af sömu slóðum.

Kaffi og meðlæti voru á staðnum, eins og hver gat í sig látið, enda var búist við að fleiri mættu á fundinn. Þessa var neytt fyrir og eftir fund og í einu örstuttu hléi. Fundi lauk um kl. hálftíu.

Aðalfundur Ferðafélags Ísfirðinga haldinn miðvikudaginn 5. apríl 2023

Aðalfundur Ferðafélags Ísfirðinga haldinn miðvikudaginn 5. apríl 2023 kl. 2.000 í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins á Ísafirði.

Mætt: Emil Ingi Emilsson, Eggert Stefánsson, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Ómar Smári Kristinsson, Magnús Ingi Jónsson, Sturla Páll Sturluson, Hrönn Harðardóttir og Geir Harðarson.

Eggert var tilnefndur fundarstjóri og Ómar Smári fundarritari. Þeir skoruðust ekki undan og tilnefning þeirra var samþykkt einróma.

Dagskrá aðalfundarins:

  • Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs
  • Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
  • Lagabreytingar
  • Kosning formanns
  • Kosning tveggja stjórnarmanna
  • Kosning tveggja varamanna
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  • Ákvörðun félagsgjalds
  • Önnur mál

Skýrsla formanns um starfsemi næstliðins árs:

Emil hélt efnismikla og vel undirbúna tölu um starfsemi félagsins á liðnu starfsári. Hann fór í stuttu máli yfir ferðirnar. Það athyglisverðasta var að engin ferð féll niður, þó að í sumum tilfellum hafi þurft að breyta um áætlun. Fjölbreytileiki ferðanna hafi farið vel í fólk, meðal annars að vera með ferðir í samvinnu við aðra. Síðasta ferðin var einmitt samvinnuverkefni með Háskólasetri Vestfjarða. Hann nefndi einnig að félagið væri búið að eignast nýjan fána félagsins sem hefði fyrst verið notaður í gönguferðinni á Kaldbak. Hann sagði einnig frá gangi ritunar félagsins og að hugsanlega verði gefinn út bæklingur á árinu um fyrsta hluta í starfsemi félagsins. Emil gerði fundarsetum ársins allmikil skil. Stjórnarfundur var einn en hann hefði setið tvo deildarfundi Ferðafélags Íslands. Þar voru rædd mörg og mikilvæg málefni, svo sem um öryggismál, árgjald, jafnvægi milli móðurfélags og deilda og ekki hvað síst siðferðisleg málefni sem hafa verið í brennidepli undanfarið. Gagnlegir fundir þar sem mörg mikilvæg mál voru til lykta rædd.

Emil ræddi einnig um starfið fram undan. Hann stiklaði á nokkrum atriðum sem hann taldi að þarft væri að leggja áherslu á og/eða ráðast í:

  1. Semja öryggisáætlun og vinna að umhverfisstefnu og faglegu ferli í málum sem falla undir hvers kyns ofbeldi þ.á.m. áreitni. Félagið lýtur sömu reglum og FÍ þar til þeirri vinnu er lokið.
  2. Þýða efni á fésbókarsíðu og heimasíðu yfir á ensku og pólsku.
  3. Hvetja fólk af erlendum uppruna til að ganga í félagið og/eða taka þátt í ferðum þess.
  4. Halda áfram að leita eftir samstarfi við aðra aðila.
  5. Halda hagnýtt námskeið næsta vetur

Fyrirspurnir eftir kynningu: Spurt var um lágmarksfjölda í félaginu, en það er víst einhver þannig kvóti til sem segir að það verði að vera 50 manns. Skráðir félagar FFÍ eru yfir 100 talsins. Einhver umræða fór líka fram um árgjald. Hún var tekin upp síðar á fundinum.

Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar

Magnús Ingi Jónsson, gjaldkeri félagsins, afhenti öllum fundagestum ítarlegan og auðlesinn ársreikning 2022. Þar stóð allt eins og stafur á bók. Einhver smá hallarekstur var á árinu og líka árið á undan en eigið fé félagsins er samt 1.131.805, þannig að það er í ágætum málum. Reikningarnir voru samþykktir með lófataki. Í fundarlok undirrituðu stjórnarmenn þá.

Fyrirspurnir eftir kynningu: Spurt var um félagsgjöld vegna misskilnings um fjölda félagsmanna. Það mál var leyst í skyndi. Þegar Ómar Smári sá að félagið er vel statt og að hann hafi fengið greitt fyrir kynningarvinnu í fyrra spurði hann hvort það mætti gerast aftur (hafði annars hugsað sér að gera það frítt). „Verður er verkamaðurinn launa sinna“ er viðkvæði formannsins þegar slíkt ber á góma.

 

Lagabreytingar

Engar lagabreytingar.

Kosning formanns

Ekki er komið að kosningu til formanns. Emil var á síðasta stjórnarfundi kosinn til tveggja ára.

Kosning tveggja stjórnarmanna

Eitt sæti var laust í aðalstjórn. Pernilla Rein gefur ekki kost á sér áfram þar. Gunnhildur Björk gaf kost á sér í hennar stað og var því samstundis tekið fagnandi af öllum fundargestum.

Kosning tveggja varamanna

Eitt sæti var laust í varastjórn. Helga Hausner gefur ekki kost á sér áfram þar. Eggert Stefánsson gaf kost á sér í hennar stað og var því samstundis tekið fagnandi af öllum fundargestum.

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

Engar breytingar. Skoðunarmenn eru Margrét Högnadóttir og Martha Kristín Pálmadóttir.

Ákvörðun félagsgjalds

Magnús Ingi lagði til að árgjaldið héldist í hendur við árgjald móðurfélagsins. Þannig hafi það verið undanfarið og gefið góða raun. Allir viðstaddir voru sammála því. Á aðalfundinum (undir þessum lið eða skýrslu formanns) var talað um skiptingu árgjaldsins milli móðurfélags og deilda og um ágóðann af félagsaðild, m.a að fá Árbók FÍ. Enginn á þessum fundi setti sig á móti því en Emil nefndi að á deildarfundunum hafi komið fram sú skoðun að það yrði valfrjálst hvort að félagsmenn keyptu bókina eða ekki.

Fundarhlé

Starfsmaður frá Edinborg bistro mætti með bakka, hlaðinn brauði með kæfu og sultu. Með því var stór kanna af kaffi. Fundargestir nutu veitinganna. Það tókst að klára þær í fundarlok.

Önnur mál

Magnús Ingi spurði hvort félagsskírteinin verði rafræn. Um þessar mundir eru þau bæði þannig og á pappír. Það hafi valdið ruglingi. Emil upplýsti um að þau mál hafi ekki verið rædd á FÍ-fundunum. Varla sé stefnubreytinga að vænta hvað það varðaði að þau yrðu öll stafræn í framtíðinni,

Eggert benti á gestabókavandann í Naustahvilft. Hann hefur verið duglegur að skipta um bók þegar hann hefur verið þar á ferðinni. Sturla Páll upplýsti að nú væri þar bæði bókarlaust og kassinn laskaður. Öllum ber saman um að FFÍ haldi áfram að sinna gestabókinni. Eggert á enn eftir að skila síðustu bókinni á Safnahúsið. Hann er að reyna að telja nöfnin í henni. Það er ekki auðvelt verk. Það vita samt allir að umferðin upp í Naustahvilft er þung.

Eggert sagði einnig frá vandræðum með ferðina hans í Hvítanes 10. júní næstkomandi. Hann hafi óvart tvíbókað sig þann dag. Fólk hvatti hann til að missa ekki af hinum viðburðinum en reyna þess í stað að finna sér staðgengil. Sá besti í það, Kristján í Hvítanesi, segist ekki vera fær um að taka ferðina að sér.

Ómar Smári hélt myndakynningu um væntanlegar ferðir þessa árs. Hann fékk til þess venju fremur rúman tíma, þar sem aðalfundurinn gekk vel fyrir sig. Ekki veitti af, því hann var með mikið af myndefni, ljósmyndum og kortum, auk auglýsinganna sem hann útbjó fyrir hverja ferð (þær sem birtast á fésbókarsíðu og heimasíðu félagsins). Allir fundargestir nema einn (og kannski Eggert) áttu það sameiginlegt að verða fararstjórar í einni eða fleirum þessara ferða. Það skorti því ekki umræðuefnið. Enda fór svo að kynningin stóð fram yfir fundartíma. Fundarstjóri gerði viðvart korter yfir tíu og kynningunni lauk klukkan hálfellefu. Þá var klappað og fundi slitið.

Gamansaga

Gamansaga úr ferðum hjá ferðafélaginu Ferlir en FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík

Félögum stóð til boða að kaupa derhúfur hjá félaginu á sínum tíma.Til gamans má geta þess að tvær húfur, sem týndust, . komu í leitirnar skömmu síðar. Aðra hafði eigandinn lagt frá sér í Brennisteinsfjöllum. Þremur dögum síðar var bankað upp á hjá honum og honum afhent húfan. Hina fann eigandinn á snaga í rakarastofu í borginni og uppgötvaði þá að húfunni hafði hann týnt á Bláfjallasvæðinu rúmri viku fyrr. Þriðja húfan týndist svo norðvestan við Einbúa, sunnan við Kastið, fyrir stuttu. Hennar er vænst í hús innan tíðar.
Lygilegasta sanna sagan er þó sú er segir af FERLIRsfélaganum, sem varð það á að stíga óvart með annan fótinn fram af snjóhengju á bjargbrún. Honum til happs náði hann að grípa í húfuderið og að hanga á því nógu lengi til að geta stigið skrefið til baka á fast. Síðan hefur hann jafnvel og sofið með húfuna – svona til öryggis…

Námskeið í rötun

Orðsending frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða:
Vilt þú læra að rata?
Spennandi námskeið haldið í samstarfi við Ferðafélag Ísfirðinga. Ferðafélagið niðurgreiðir 50% af heildarverði til almennra félagsmanna sinna en allt gjaldið fyrir fararstjóra í ferðum félagsins á komandi sumri. Frekari upplýsingar og skráning á heimasíðu Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða frmst.is

Litla ferðafélagið í Bolungarvík

Ferðafélag Ísfirðinga og tvö fyrri líf þess eru ekki einu ferðafélögin sem stofnuð hafa verið á norðanverðum Vestfjörðum. Á fyrri hluta 20. aldar varð til ferðafélag í Bolungarvík. Hér er örlítill fróðleiksmoli um það. Hann er fenginn úr minningargrein um Guðmund Pálsson, stofnanda félagsins. Jónatan Einarsson, vinur hans, ritaði:

“Á milli heimila okkar var mikill samgangur og vinátta. Við Guðmundur vorum leikfélagar og stofnuðum ásamt fleiri ungum strákum Litla ferðafélagið sem stóð fyrir útilegum, fjallaferðum, skíðaferðum o.fl. Með því fórum við í margar ógleymanlegar ferðir, klifum flest fjöll í kringum Bolungarvík, fórum í útilegur víðsvegar um Ísafjarðardjúp og í hrikalegri náttúru Vestfjarða dreymdi okkur marga framtíðardrauma. Upp úr ferðafélaginu var stofnað Skátafélagið Gagnherjar og var Guðmundur aðalhvatamaður þess og fyrsti formaður. Guðmundur var alla tíð mikið náttúrubarn og útivistarmaður og í skátafélaginu gat hann sameinað það áhugamál sitt og þá lífsstefnu sem hann alla tíð hafði í heiðri, að ganga aldrei á bak orða sinna. Guðmundur var einnig virkur félagi í Ungmennafélagi Bolungarvíkur og formaður íþróttaráðs um árabil.”