Litla ferðafélagið í Bolungarvík

Ferðafélag Ísfirðinga og tvö fyrri líf þess eru ekki einu ferðafélögin sem stofnuð hafa verið á norðanverðum Vestfjörðum. Á fyrri hluta 20. aldar varð til ferðafélag í Bolungarvík. Hér er örlítill fróðleiksmoli um það. Hann er fenginn úr minningargrein um Guðmund Pálsson, stofnanda félagsins. Jónatan Einarsson, vinur hans, ritaði:

“Á milli heimila okkar var mikill samgangur og vinátta. Við Guðmundur vorum leikfélagar og stofnuðum ásamt fleiri ungum strákum Litla ferðafélagið sem stóð fyrir útilegum, fjallaferðum, skíðaferðum o.fl. Með því fórum við í margar ógleymanlegar ferðir, klifum flest fjöll í kringum Bolungarvík, fórum í útilegur víðsvegar um Ísafjarðardjúp og í hrikalegri náttúru Vestfjarða dreymdi okkur marga framtíðardrauma. Upp úr ferðafélaginu var stofnað Skátafélagið Gagnherjar og var Guðmundur aðalhvatamaður þess og fyrsti formaður. Guðmundur var alla tíð mikið náttúrubarn og útivistarmaður og í skátafélaginu gat hann sameinað það áhugamál sitt og þá lífsstefnu sem hann alla tíð hafði í heiðri, að ganga aldrei á bak orða sinna. Guðmundur var einnig virkur félagi í Ungmennafélagi Bolungarvíkur og formaður íþróttaráðs um árabil.”